Auknar atvinnutekjur í sjávarútvegi og fiskeldi

Deila:

Heildaratvinnutekjur á Íslandi námu 1.316 milljörðum króna á árinu 2018. Það er aukning upp á rúm 5% að raunvirði frá árinu 2017 sem rímar vel við umsvifin í hagkerfinu á sama tíma, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þetta má meðal annars sjá í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar um þróun atvinnutekna eftir atvinnugreinum og landshlutum á árunum 2008 til 2018.

Mikill munur á milli svæða
Atvinnutekjur jukust í öllum landshlutum á árinu 2018 frá fyrra ári, en þó var talsverður munur þar á eins og myndin hér fyrir neðan ber með sér. Mest var aukningin á Suðurnesjum (10%), líkt og verið hefur undanfarin ár, og hana má rekja að langstærstum hluta til atvinnugreina er tengjast ferðaþjónustu. Minnst var aukningin á Norðurlandi eystra (3%).

Atvinnutekjur aukast bæði í sjávarútvegi og fiskeldi
Heildaratvinnutekjur í sjávarútvegi jukust um tæp 6% að raunvirði á árinu 2018 frá fyrra ári. Þar af jukust atvinnutekjur í fiskveiðum um tæp 8% en í fiskvinnslu um 3%. Minni aukning í fiskvinnslu kann að skýrast af fækkun starfmanna í greininni á sama tíma en þeir voru rúmlega 3% færri samkvæmt tölum Hagstofunnar um fjölda starfandi samkvæmt staðgreiðsluskrá. Á hinn bóginn fjölgaði starfsmönnum í veiðum um rúm 2%. Að teknu tilliti til þessa hækkuðu atvinnutekjur í vinnslu meira en í veiðum, eða um tæp 7% á móti tæpum 6%. Aukninguna í atvinnutekjum í sjávarútvegi má meðal annars rekja til sjómannaverkfallsins í ársbyrjun 2017, sem setti sitt mark á rekstur fyrirtækjanna og þar með atvinnutekjur í greininni.

Á myndinni á undan má sjá að framlag sjávarútvegs leiddi til hækkunar á atvinnutekjum á öllum svæðum, að höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi undanskildu. Ástæðuna fyrir litlum áhrifum á höfuðborgarsvæðinu verða ekki rakin til þess að atvinnutekjur í sjávarútvegi hækkuðu minna þar en annars staðar, enda var aukningin þar umfram meðaltal (7%). Ástæðan er sú að vægi sjávarútvegs þar er mun minna en í öðrum landshlutum. Á hinn bóginn lækkuðu atvinnutekjur af sjávarútvegi á Suðurlandi á milli ára (-1%) sem hafði því lítilsháttar neikvæð áhrif á atvinnutekjur á svæðinu.

Atvinnutekjur í fiskeldi jukust um rúm 7% að raunvirði milli ára sem var lítillega umfram fjölgun starfsmanna í greininni á sama tíma. Var aukning á öllum landshlutum, að undanskildum Vestfjörðum (-5%) og Norðurlandi vestra (-29%). Þróunina á Vestfjörðum má rekja til samdráttar í framleiðslu sem leiddi jafnframt til þess að í heild dróst framleiðslan í fiskeldi saman á árinu. Vægi fiskeldis í atvinnutekjum er almennt ekki hátt enn sem komið er og hafa því breytingar á atvinnutekjum þar lítil áhrif á atvinnutekjur í heild. Þetta endurspeglast í myndinni á undan þar sem framlag fiskeldis er vart sjáanlegt þrátt fyrir ágætis aukningu í atvinnutekjum á flestum svæðum.

Viðsnúningur í vændum á árinu 2019?
Eflaust hefur orðið talsverður viðsnúningur í þróun á atvinnutekjum, samanber aðra mynd hér að framan, á yfirstandandi ári. Eftir uppgangstíma undanfarinna ára hefur hægst á hjólum atvinnulífsins og benda allar hagtölur til  kólnunar í hagkerfinu. Eflaust verður bakslagið meira á þeim svæðum þar sem áhrifa ferðamannastraumsins til landsins hafa gætt hvað mest, einkum á Suðurnesjum. Góður gangur í fiskeldi á árinu mun svo eflaust setja sitt mark á atvinnutekjur á Vestfjörðum og Austurlandi. Loðnubrestur á árinu hafði mest áhrif á atvinnutekjur á Austurlandi og í Vestmannaeyjum.

Verulegur munur á vægi sjávarútvegs eftir landshlutum
Verulegur munur er á atvinnuháttum á milli landshluta svo sem sjá má í vægi einstaka atvinnugreina í heildaratvinnutekjum á svæðunum. Vægi, og þar með áhrif sjávarútvegs á atvinnutekjur, er minnst á höfuðborgarsvæðinu en mest á Vestfjörðum. Frá árinu 2008 til og með 2018 hafa atvinnutekjur í sjávarútvegi á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði staðið undir 2,6% heildaratvinnutekna en þetta hlutfall hefur verið um 31% á Vestfjörðum. Þetta og meira til má sjá á Radarnum þar sem tölur um atvinnutekjur hafa verið uppfærðar til ársins 2018 fyrir sjávarútveg.

Atvinnutekjur af fiskeldi aukast í takt við umsvif
Samhliða auknum umsvifum í fiskeldi hafa atvinnutekjur af greininni aukist undanfarin ár, en þær fjórfölduðust að raunvirði frá árinu 2008 til ársins 2018. Líkt og sjávarútvegur, er fiskeldi landsbyggðargrein og hefur að jafnaði mátt rekja um 81% atvinnutekna í fiskeldi til landsbyggðarinnar á þessu tímabili. Um þriðjung atvinnutekna má rekja til fiskeldis á Vestfjörðum, en þar voru atvinnutekjur fimmtánfalt meiri að raunvirði á árinu 2018 en þær voru árið 2008. Vægi fiskeldis er jafnframt langmest á Vestfjörðum og stóð það undir 4,2% atvinnutekna á svæðinu á árinu 2018. Miðað við þróunina í ár er ekki við öðru að búast en munurinn þar sé orðinn margfalt meiri og vægið hærra, og einnig má búast við verulegri aukningu á Austurlandi. Sjá má frekari umfjöllun á Radarnum um atvinnutekjur í fiskeldi.

 

Deila: