Aukið laxeldi yrði sannkallaður búhnykkur

Deila:

„Mismunur á burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar og áhættumati stofnunarinnar er um 30 þúsund tonn annars vegar í Ísafjarðardjúpi og hins vegar á Austfjörðum. Í skýrslu Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis kemur fram að undanfarið ár hefur mánaðarverð á kíló á eldislaxi verið á bilinu 6-8 evrur , sem svarar til 750 til eitt þúsund króna á kíló. Útflutningsverðmæti á 30 þúsund tonnum gæti því verið á bilinu 22,5 til 30 milljarðar á ári.“ Þetta kemur fram í færslu á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva og segir þar ennfremur:

Samanburður við sjávarútveginn

Skoðum þetta í samhengi við útflutningsverðmæti í sjávarútvegi. Ef litið er á tölur Hagstofunnar um útflutningsverðmæti sjávarútvegs blasir þetta við:

Heildarútflutningsverðmæti sjávarútvegs: 232 milljarðar.
Þar af þorskafurðir 100 milljarðar.
Uppsjávarfiskur 48 milljarðar.
Þar af loðna, 18 milljarðar,
Síld, 10 milljarðar
Makríll, 10 milljarðar

Með öðrum orðum ef hægt væri að stunda laxeldi í samræmi við burðarþolsmatið næmi útflutningsverðmætið svipaðri tölu og svarar til alls útflutnings á uppsjávarfiski. ´

Útflutningsverðmæti vegna laxeldis eingöngu í Ísafjarðardjúpi, eða vegna aukningar á Austfjörðum yrði svipað og á síld, makríl og kolmunna samanlagt ef miðað er við hærri verðin á laxinum. Útflutningsverðmætið og hvoru svæðinu fyrir sig yrði álíka og á loðnu og síld samanlagt, svo dæmi séu tekin.

Til mikils að vinna

Það er því til mikils að vinna að finna ábyrgar leiðir í góðri sátt við náttúruna til þess að auka laxeldið svo það geti orðið í samræmi við burðarþolsmatið og eins og fiskeldisfyrirtækin vilja stefna að og væntingar þeirra og íbúa svæðanna stóðu til.

Af þessum tölum má líka sjá að ekki er einasta um að ræða hagsmuni þessara byggða heldur einnig þjóðarbúsins í heild sinni.

Nýr búhnykkur

Gleymum því ekki að þegar makrílveiðar og vinnsla hófust fyrir alvöru var talað um efnahagslegan búhnykk fyrir þjóðina og voru það sannarlega orð að sönnu. Þessar tölur sýna að búhnykkurinn fyrir íslenskt samfélag yrði enn meiri ef okkur tekst að auka laxeldið frá þeim 71 þúsundum tonna sem áhættumatið kveður á um og upp í þau 130 þúsund tonn sem burðarþolsmatið nam.

 

Deila: