Tvöfalt meiri afli en fyrstu dagana í fyrra

Deila:

Óhætt er að strandveiðiflotinn fari vel af stað. Landssamband smábátaeigenda hefur tekið saman aflabrögð og tölfræði fyrstu fjóra daga strandveiða. Tæplega 1000 tonn af þorski hafa komið að landi en það er 10% útgefinna aflaheimilda. Heimilt er að veiða tíu þúsund tonn á vertíðinni. 111 tonn af ufsa hafa komið á land; mest á svæðum A og D.

Í tölunum sem LS hefur tekið saman sést að í samanburði við fyrri ár er um algjört met að ræða. Í fyrra kom helmingi minni afli að land fyrstu fjóra dagana. LS bendir á að 630 bátar séu komnir með leyfi en til samanburðar voru leyfin 513 á sama tíma í fyrra.

Á svæði á hefur 56% þorskaflans komið á land en þar eru liðlega 53% skráðra báta.

Vertíðinni lauk 21. júlí í fyrra, þegar leyfilegum hámarksafla sem úthlutað hafði verið til strandveiða var náð. Ef marka má þessa góða byrjun verður vertíðin enn styttri að þessu sinni, nema auknar veiðiheimildir komi til.

Deila: