Enn finnast dauðir Íslandssléttbakar

Deila:

Þrjú hræ af Íslandssléttbak hafa síðustu daga fundist við austurströnd Kanada samkvæmt tilkynningum frá ýmsum aðilum. Að þeim meðtöldum hafa 9 Íslandssléttbakar fundist dauðir á þessu ári. Dánarörsök þessara síðustu hvala liggur ekki fyrir, en líklegt má telja að þeir hafi orðið fyrir skipum og drepist við höggið eða lent í skrúfunni.

Þessari hvalategund var nánast útrýmt þegar hvalveiðar margra þjóða stóðu sem hæst en Íslandssléttbakurinn er mjög hægsyndur og auðvelt að komast að honum.

Einn hvalanna fannst síðasta fimmtudag á reki á St. Lawrenceflóa. Sá næsti fannst á föstudag  í Clace Bay í Nova Scotia og sunnudag fannst sá þriðji við Cape Breton við norðurhluta Nova Scotia. Ekki liggur fyrir hvað varð hvölunum að aldurtila, en í fyrsta tilfellinu liggur þá fyrir að það hafi ekki verið veiðarfæri.

Um 400 Íslandssléttbakar eru nú taldir vera til í heiminum. Vandlega er fylgst með hvölunum og mikið gert til að vernda þá, sérstaklega fyrir veiðarfærum sem kunna að vera þeim hættuleg.

 

Deila: