Úr sextán skipum í fjögur

Deila:

„Við höfum verið að breyta útgerðarmynstrinu hjá okkur, höfum verið að úrelda skip, línuskipin Sturlu, Tómas og Hrafn, en í staðinn kom togbáturinn Sturla, sem áður hét Smáey (Vestmannaey). Þetta gerðum við meðal annars vegna þessa mikla niðurskurðar sem verið hefur í þorskinum undanfarin ár, rúmlega 20%. En við við erum að byggja skip, sem á að koma eftir tvö ár, svo við vonum að þorskstofninn verið farinn að rétta úr sér þegar skipið kemur. Við getum leyft okkur að vonast eftir betri tíma. Strax á síðasta ári færðum við kvóta milli ára til að reyna að mýkja samdráttinn í veiðinni eins og við getum. Þá  höfum við lengt sumarstoppin, þau eru lengri nú en þau voru í fyrra og hitteðfyrra.“

Þetta segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. Í Grindavík um stöðuna nú um kvótaáramótin. Fyrirtækið hefur staðið í miklum aðgerðum til hagræðingar á undanförnum árum.

Ísfiskskip Þorbjarnar, togarinn Sturla og línubáturinn Valdimar.

„Nú gerum við út einn línubát, Valdimar, togbátinn Sturlu og frystitogarana Hrafn Sveinbjarnarson og Tómas Þorvaldsson. Það er því orðin allmikil breyting frá því sem var, þegar þrjú fyrirtæki, Þorbjörn, Fiskanes og Valdimar í Vogum runnu saman í eitt undir nafninu Þorbjörn. Þá voru þessi fyrirtæki að gera út 16 skip. Það hefur verið handagangur að laga það til síðan þá. Það er búið að breyta mörgu síðan, það má í raun segja að ekkert sé eins,“ segir Gunnar.

Ísfisktogari með möguleika á frystingu

Nýja skipið verður ísfisktogari en er þannig hannað, að mjög auðvelt verður að breyta því í frystiskip ef aðstæður verða þannig að það borgi sig. Allar lagnir og rými eru þannig að gert er ráð fyrir frystitækjum og vinnslubúnaði og lestin er hönnuð sem frystilest þó hún verði nýtt sem ferskfisklest til að byrja með. „Við viljum halda okkur við ferska fiskinn áfram, en engar ákvarðanir hafa verið teknar um það hvort og þá hvaða skipum verður skipt út við komu nýja skipsins. Það fer bara eftir hvað kvótinn verður rýmilegur þegar þar að kemur og hvernig fiskmarkaðir ytra þróast.“

„Fljótlega eftir sameininguna minnkaði vægi saltfiskins, en við höfum samt haldið nokkuð í þann markað. Það eru um 25% af fiskinum sem fara í salt. Hitt fer í ferskt og sjófryst. Við höfum þannig verið að sinna þessum traustu viðskiptavinum okkar á Spáni. Þeir hafa helst viljað línufiskinn, en við höfum nú þegar fengið þá til að taka saltaðan fisk úr trolli. Sá fiskur í dag er mikið betri en hann var hér áður fyrr. Það er betur farið með fiskinn, tekin styttri og minni hol og gengur fljótar í aðgerð og kælingu og túrarnir eru líka styttri. Þetta eru vinnslukerfi sem eru mjög afkastamikil og vel hönnuð.

Ekkert sótt í Barentshafið nú

Landað út frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni.

Við ætlum að keyra þetta svona áfram í vetur, en það fer þó eitthvað eftir hvernig afurðaverðin halda. Þau eru búin að vera í hæstu hæðum núna, en nú eru að koma fram einhverja lækkanir, til dæmis á hausuðum og slægðum þorski frá Noregi núna í ágúst, en framboð á honum mun minnka skarpt þegar líður á haustið. Það eru ekki miklir kvótar eftir í Noregi og einnig hefur þeim ekki gengið vel að ná þessum kvótum.“

Þorbjörn á það lítinn kvóta í Barentshafinu að hann var ekki sóttur að þessu sinni, heldur var honum skipt út fyrir heimildir hér heima. Fyrirtækið var líka búið að selja þær heimildir sem það átti í lögsögu Rússa áður. Það var því ekki orðinn grundvöllur til að fara eftir þessu. Svo eru þær breytingar að dynja yfir nú, að engar heimildir til veiða í lögsögu Rússa hafa verið gefnar út.

Mjög stór þorskstofn

En hvað segir Gunnar um stöðu þorskstofnsins nú eftir mikinn niðurskurð veiðiheimilda á undanförnum árum?
„Það sem er í sjónum af þorski í dag, er mjög stór þorskstofn og þegar þannig er, er auðvelt að veiða þorskinn. Hann er eiginlega alls staðar og auðveldast að veiða hann af öllum tegundum. Ég er viss um að hann er búinn að ná sér. Úr svona stórum þorskstofni væri engin goðgá að taka aðeins meira en við höfum verið að taka að undanförnu, eða um 20%. Mér hefur alltaf fundist að það mætti taka meira úr stórum stofni og minnka hlutfallið svo þegar stofninn dalar.

Við höfum líka velt því mikið fyrir okkur hvernig staðan í karfanum er. Við viljum láta rannsaka það betur. Nú segja sjómennirnir okkar að alls staðar sé hægt að ganga að karfa, en það hefur dregið mjög úr sókninni í hann vegna þess að,  kvótinn hefur minnkað svo mikið. Það hefur alltaf verið mjög erfitt að meta nýliðunina í karfastofninum. Ekki er enn búið að finna upp þá tækni sem þarf til að finna út hvernig hvert got kemur út á hverju ári. Raunverulega erum við ekki að fá almennilegar upplýsingar um það, fyrr en fiskurinn í kominn í veiðanlegt ástand. Þetta er búið að vera vandamál og vonandi finnum við upp einhverjar nýjar aðferðir til mæla þetta.“

Allir markaðir góðir

Saltfiskur er um fjórðungur framleiðslu Þorbjarnar.

Gunnar segir að markaðir fyrir fiskafurðir séu allir góðir. Þeir taki allir vel og verðið sé hátt. En kaupendur séu reyndar ekki sáttir við að þurfa borga svona hátt verð og koma því út til neytenda. Ábyggilega séu einhverjir neytendur farnir að borða eitthvað annað en fisk, en þá spyrji menn sig hvað annað. Allt hafi hækkað, en kannski hafi menn bara notað tækifærið og minnkað við sig. Kaupendur Þorbjarnar sem séu að selja fisk og franskar hafi gripið til þess ráðs að minnka skammtana svolítið til að mýkja þessar hráefnisverðshækkanir. Einhverjir staðir hafi hætt rekstri meðan þessar hækkanir séu að ganga yfir. Flestir haldi þó áfram og taki því sem að höndum ber.

Pólitísk mistök

Aðspurður um áhrif innrásar Rússa í Úkraínu og reksturinn segir Gunnar að þau séu ekkert meiri en á sjávarútveginn almennt. „Stríðið hefur fyrst og fremst valdið verðhækkunum á ýmsum aðföngum sem reksturinn þarf á að halda. Þar vegur olíuverðið þungt. Hvað varðar útflutning á fiskafurðum til Rússlands, vorum við búnin að taka á okkur þann skell, þegar Rússar settu innflutningsbann á afurðir frá löndum sem studdu viðskiptahindranir Evrópusambandsins vegna innlimunar Krímskagans í Rússland 2014. Það var pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að fylgja Evrópusambandinu í þeim aðgerðum og hún bitnaði fyrst og fremst á Íslandi. Það virðast allar aðrar þjóðir geta haldið sínu fram, en hér giltu aðrar reglur og við gátum ekki sinnt þeim markaði í Rússlandi sem við vorum að sinna áður. Rússar setja viðskiptabann á Ísland til að refsa Evrópusambandinu. Þetta voru bara pólitísk mistök hér að fara þessa leið.“

Jákvætt fyrir Grindavík

Öll vinnsla í Grindavík er nú komin undir eitt og sama þakið og flatningsvél komin til viðbótar í vinnslulínunni.

Gunnar segir að sjávarútvegurinn hafi þrátt fyrir þetta og aðrar áskoranir eins og Covid staðið sig vel. Það sé einnig gott að aðrir hlutir séu farnir að ganga vel eins og ferðaþjónustan og áliðnaðurinn til að afla gjaldeyris. Það hljóti að létta aðeins þungann á sjávarútveginum og dreifa ábyrgðinni meira. Aðspurður um kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hf., hinu stóra sjávarútvegsfyrirtækinu í Grindavík, segir Gunnar að það verði líklega jákvætt fyrir Grindavík, gangi það eftir sem stjórnendur Síldarvinnslunnar hafi sagt, að vinnsla í Grindavík verði efld. Það verði þá meira um landanir á ferskum fiski, sem fari í gegn í Grindavík. Þá sé Samherji, stærsti hluthafinn í Síldarvinnslunni mjög öflugur í fiskeldi, og Síldarvinnslan hafi fjárfest töluvert í því að undanförnu. Samherji sé að byggja upp viðamikið laxeldi á landi á Reykjanesi og það geti komið sér vel fyrir Grindavík. Því fylgi bara tækifæri fyrir Grindvíkinga þegar svo öflug fyrirtæki komi sér fyrir í Grindavík og nágrenni. Það sé líklega til góða að eigendum Vísis hafi fjölgað  í nokkur þúsund, þó sumir séu að tala um samþjöppun. Það séu alltof oft einhver öfugmæli í umræðunni um sjávarútveg.

Ekki á leið á markað

Spurður hvort Þorbjörn sé á leiðinni á hlutabréfamarkað, segir hann svo ekki vera. „Við vorum á markaði á sínum tíma og það gekk frekar brösuglega. Það var ekki mikill áhugi fyrir fjárfestingum í sjávarútvegi á þeim tíma. Menn hurfu því frá því. En mér hefur fundist bæði Brim og Síldarvinnslan hafi staðið sig ágætlega á markaðinum. Hver veit hvort sú staða skapist að tækifæri verði fyrir okkur að fara inn á markaðinn       . Þorbjörn sé líklega of lítil eining fyrir markaðinn í dag, en fyrirtækið er með 5.6% hlutdeild í þorskinum.“
Viðtalið við Gunnar birtist áður í Sóknarfæri, blaði um sjávarútveg sem Ritform gefur út. Blaðið má lesa í heimasíðu Ritforms https://ritform.is/utgafur/

 

 

Deila: