Áhrif laxeldis verulega jákvæð fyrir samfélagið

91
Deila:

„Áhrif 10.000 ársframleiðslu Arnarlax á laxi í Ísafjarðardjúpi með 10.000 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma eru metin óveruleg fyrir ástand sjávar og svifsamfélag og á nytjastofna sjávar og spendýr; óveruleg til nokkuð neikvæð fyrir botndýralíf, ásýnd og haf- og strandnýtingu ; óveruleg til nokkuð jákvæð fyrir fugla og verulega jákvæð fyrir samfélag.“

Þetta kemur fram í  frummatsskýrslu Verkís fyrir Skipulagsstofnum um 10.000 tonn laxeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi. Í skýrslunni segir ennfremur:

„Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða og markvissrar vöktunar eru áhrif á náttúrulega laxastofna m.t.t fisksjúkdóma og laxalúsar líklega óveruleg. Áhrifin verða þau sömu óháð því hvort notaður verður frjór eða ófrjór eldislax. Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða er talið ósennilegt að fyrirhugað eldi á frjóum laxi skaði villta laxastofna með tilliti til hættu á erfðablöndun umfram það sem forsendur áhættumats erfðablöndunar setur.

Með hliðsjón af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og mótvægisaðgerðum eru áhrif 10.000 tonna eldis á frjóum laxi metin óveruleg til nokkuð neikvæð á erfðaefni villtra laxfiska. Áhrifin verði staðbundin og líklega afturkræf miðað við að mótvægisaðgerðir leiði til þess að innblöndun verði lítil.

Eldi á 10.000 tonnum af ófrjóum laxi er ekki líklegt til að hafa áhrif á erfðir náttúrulegra laxastofna í Ísafjarðardjúpi og áhrif því metin í mesta lagi óveruleg á náttúrulega laxastofna í Ísafjarðardjúpi. Samlegðaráhrif með öðru fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og við Vestfirði eru metin nokkuð neikvæð fyrir ástand sjávar, botndýralíf og haf- og strandnýtingu, en gætu orðið nokkuð til talsvert neikvæð fyrir náttúrulega laxastofna, ef um er að ræða frjóan lax, en líklega í mesta lagi óveruleg í tilfelli ófrjós eldislax. Samlegðaráhrif ásýndar eru metin óveruleg til talsvert neikvæð en verulega jákvæð fyrir samfélag svæðisins.“

Deila: