Skoðað hvort svigrúm sé til aukningar á strandveiðum

108
Deila:

Sjávarútvegsráðherra segir til skoðunar í ráðuneytinu hvort svigrúm sé til að auka aflaheimildir til strandveiða. Ekki hafi verið hægt að sjá fyrr en nú hvað þar er til ráðstöfunar.

Strandveiðisjómenn óttast að veiðar stöðvist tæpum mánuði áður en tímabilið er á enda, verði aflaheimildir ekki auknar. Strandveiðar eru í hinum svokallaða 5,3 prósenta hluta kvótakerfisins og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segir að öllum heimildum þar hafi verið úthlutað í júlí 2019. Hann segist vel meðvitaður um stöðu aflaheimilda í strandveiðikerfinu.

„Varðandi framhaldið þá er ráðuneytið mitt núna í þessum töluðu orðum að taka saman hvort það séu lausar aflaheimildir í öðrum pottum innan 5,3 prósenta kerfisins. Ég vonast eftir því að við getum lokið þessu innan tíðar,“ sagði Kristján í samtali við fréttastofu ruv.

Kristján segir að allt aflamagnið í 5,3 prósenta kerfinu í fyrra hafi klárast. Það sé því ekki fyrr en nú, undir lok fiskveiðiársins, sem það sjáist hvað er til ráðstöfunar.

„Ég hef ítrekað sagt að ef það er svigrúm þar þá munum við nýta það í þágu strandveiðanna.“

 

Deila: