Málstofa um rafrænt eftirlit með fiskveiðum

Deila:

Fiskistofa fékk styrk frá vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um fiskveiðar ( AG FISK) til þess að efna til fjölþjóðlegrar málstofu um nýjungar í rafrænu eftirliti með fiskveiðum.  Málstofan fer fram í Bergen í Noregi 4. nóvember nk. með þátttöku sérfræðinga frá systurstofnunum Fiskistofu í Noregi, Færeyjum, Grænlandi, Svíþjóð, Kanada og Bretlandi. Þá sækja fundinn fulltrúar frá Norðaustur Atlantshafs fiskveiðiráðinu (NEAFC).

Undirbúningur málstofunnar hefur staðið frá því í vor og þar munu sérfræðingar á sviði rafræns eftirlits frá þátttökuþjóðunum flytja erindi og ráða ráðum sínum um fjögur meginefni:

  • Þróun rafrænna kerfa um borð í fiskiskipum sem fela í sér innbyggt eftirlit með afla í veiðarfærum, skráningu hans og rekjanleika ásamt sjálfvirkum flutningi allra slíka gagna til hlutaðeigandi stofnana. Með slíkum lausnum á allt eftirlit að verða markvissara en áður þekkist. Upplýsingar um muninn á  fiski í veiðarfærum og lönduðum afla nýtist við ákvörðum á stærð veiðistofna. Afli frá veiðum til neytanda verður rekjanlegur í öllum tilfellum.
  • Tækninýjungar í fjarvöktun fiskveiða, svo sem með myndavélum um borð og í höfnum. Fjallað verður um beitingu dróna og hvernig hægt væri að nýta gervihnattagögn til að styðja drónaeftirlit með brottkasti og ólöglegum veiðum.  Sérstaklega er til athugunar hvernig nýjungar af þessu tagi nýtast með hefðbundnu eftirliti og framsækinni greiningartækni.
  • Beiting áhættugreiningar og annarra tölfræðilegra aðferða við fiskveiðieftirlit og í samvinnu á milli þjóðar til þess að koma upp um ólöglegar veiðar.
  • Upplýsingarskipti um afla og landanir og deiling á reynslu og aðferðum á milli þátttökuþjóðanna.  Farið er yfir þær reglur sem gilda um eftirlit með veiðum og löndunum erlendra skipa og samhæft hvernig upplýsingaskipti eiga sér stað milli landa þegar skip veiðir í erlendri lögsögu eða á alþjóðahafsvæði en landar í heimalandinu.

Málstofan verður haldin í Bergen í beinu framhaldi af alþjóðlegri ráðstefnu sem norska fiskistofan stendur að og fjallar um rekjanleika sjávarfangs. Vonir standa til að þátttakendur í málstofunni sjái  fyrir sér hvernig hægt verður að sækja fram með frekara samstarfi á þessu sviði.

Markmiðið með þessu frumkvæði er að stuðla að nýjungum sem leiða til sjálfbærni í nýtingu og aukinni verðmætasköpun úr fiskistofnum í Norður-Atlantshafi. Ætlunin er að þróa og bæta vinnubrögð og tæknilausnir sem aðrar fiskveiðiþjóðir geta nýtt sér við eftirlit, auk þess að efla samstarf þjóða sem stunda veiðar í Norður-Atlantshafi. Vonast er til að þetta verkefni auki þekkingu og stuðli að þróun lausna sem hægt er að miðla á alþjóðavettvangi með þróunarsamvinnu og stuðla þannig að því að markmið SÞ um sjálfbæra þróun náist.

 

Deila: