Krefur skipafélögin um milljarða vegna samráðs

Deila:

Alcoa Fjarðarál hefur stefnt skipafélögunum Eimskip og Samskip um 3,1 milljarð króna í skaðabætur vegna tjóns sem félagið varð fyrir vegna samráðs félaganna á árunum 2008 til 2013. Eimskip greinir frá þessu í tilkynningu.

Samkeppniseftirlitið komst að því í fyrra að Samskip hefði brotið gegn samkeppnislögum með alvarlegum hætti og skyldi greiða 4,2 milljarða í stjórnvaldssektir. Þeirri niðurstöðu undi fyrirtækið ekki. Málið er til meðferðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Eimskip lauk sínum hluta málsins með sátt og greiddi hálfan annan milljarð í stjórnvaldssekt.

Eimskip segir raunar á vef sínum að ekkert tilefni sé til málsóknar Alcoa enda séu skilyrði skaðabótaskyldu ekki uppfyllt. Fjártjónið sé engum haldbærum gögnum studd, eins og þar segir.

Krafa Alcoa byggir á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf, sem unnið var að beiðni Félags atvinnurekenda, Neytendasamtakanna og VR. Þar var mat lagt á það tjón sem bæði neytendur og atvinnulíf urðu fyrir vegna ólögmæts samráðs Samskipa og Eimskips milli 2008 og 2013.

Deila: