Eimskip innleiðir fjarvinnustefnu

101
Deila:

Í rúmt ár hefur starfsfólki í höfuðstöðvum Eimskips verið boðið uppá verkefnamiðað vinnuumhverfi þar sem starfsfólk getur valið sér vinnuaðstöðu sem hæfir verkefnum hverju sinni. Nú hefur Eimskip stigið skrefinu lengra og mótað sér stefnu um fjarvinnu starfsmanna sem hluta af sveigjanlegu og verkefnamiðuðu vinnuumhverfi. Starfsfólki sem vinnur á skrifstofu mun nú bjóðast að vinna hluta af vinnuvikunni í fjarvinnu.

Meginmarkmið með stefnunni eru:

  • Auka starfsánægju, almenna vellíðan og hollustu
  • Stuðla að auknum sveigjanleika í starfi og betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs
  • Bjóða upp á val um fjölbreytt og nútímalegt starfsumhverfi
  • Auka svigrúm til betra vinnunæðis og aukinnar einbeitingar
  • Laða að hæfileikaríkt fólk til vinnu
  • Auka jákvæð umhverfisáhrif með því að draga úr kolefnisspori vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu sem að auki minnkar ferðatíma

„Við hjá Eimskip höfum sett okkur markmið um að skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem laðar að sér hæft starfsfólk sem vex og dafnar í starfi. Við stigum stórt skref í fyrra þegar við tókum upp verkefnamiðað vinnuumhverfi þar sem starfsfólk á skrifstofu getur valið sér starfsstöð eftir eðli verkefna hverju sinni. Nú útvíkkum við það og bjóðum uppá enn fjölbreyttara og nútímalegra vinnuumhverfi þar sem fjarvinna verður ein af fjölmörgum starfstöðum. Þannig stuðlum við að aukinni starfsánægju og almennri vellíðan, aukum sveigjanleika í starfi og  styðjum við betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Um leið náum við að draga úr kolefnisspori vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu og minnka ferðatíma sem er okkur mikilvægt,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips.

Eftir að hafa keyrt tilraunaverkefni á vormánuðum með starfsfólki, framkvæmt kannanir og rýnihópa innanhúss, kynnt okkur nýjustu rannsóknir á þessu sviði og hvað önnur fyrirtæki eru að gera í þessum efnum höfum við sett ákveðinn ramma í kringum fjarvinnuna til að styðjast við og hefur starfsfólk verið mjög ánægt með útkomuna.

Við erum afar stolt af því að geta nú formlega innleitt fjarvinnustefnuna og fyrirkomulagið með okkar frábæra starfsfólki og jafnvel verið öðrum fyrirtækjum fyrirmynd í þessum málum.“

Hér fyrir neðan má sjá hvernig fjarvinna er nú hluti af verkefnamiðuðu vinnuumhverfi Eimskips.

Deila: