Frekar rólegt yfir veiðunum

123
Deila:

,,Við höfum aðallega verið að veiðum fyrir Norðurlandi sem og á Vestfjarðamiðum en það er mjög rólegt yfir veiðunum. Það koma stöku skot af og til og þá er eins gott að vera á staðnum því skotin standa stutt og aflinn tregast fljótt aftur.”

Þetta sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, er heimasíða Brims náði tali náðist af honum um hádegisbilið í gær, en hann var þá að veiðum með skipið á Sporðagrunni fyrir norðan.

,,Við vorum á Sauðárkróki í gær og þá var landað um 100 tonnum af fiski. Það var afrakstur þriggja til fjögurra daga á veiðum. Við eigum að landa aftur á sunnudaginn en ég efast um að við náum nema þremur dögum, kannski fjórum, á veiðum. Það er spáð einhverjum bræluskít næstu tvo sólarhringana og það er ómögulegt að spá fyrir um áhrif þess á veiðarnar. Eins og spáin er núna kæmi mér ekki á óvart að við þyrftum að leita lengra austur,” segir Leifur.

Lítinn afla hefur verið að fá á Vestfjarðamiðum upp á síðkastið en Leifur segist þó hafa verið á Halanum í síðustu veiðiferð.

,,Það fiskaðist nógu mikið til að það var réttlætanlegt að hanga á Halanum þessa daga en það var ekkert meira en það. Staðan er svipuð hér á Sporðagrunni. Skotin, þegar þau koma, bjarga þó miklu,” segir Friðleifur Einarsson.

Deila: