Hnúfubak bjargað úr netum

218
Deila:

Áhöfninni á varðskipinu Þór tókst að bjarga hval sem festist í veiðarfærum fiskibáts suður af Langanesi á miðvikudag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning um málið á ellefta tímanum og var Matvælastofnun strax gert viðvart. Varðskipið Þór, sem var í grenndinni, var kallað út og sent á vettvang.

Áhöfnin á Þór hóf björgunarstörf í samráði við MAST þegar á staðinn var komið. Skömmu siðar tókst að losa hvalinn úr veiðarfærum fiskibátsins. Eftir að hvalurinn var laus fylgdi áhöfnin honum eftir á léttbát til að ganga úr skugga um velferð dýrsins.

Þegar öll veiðarfæri voru aftur komin um borð í fiskibátinn og ljóst að ekkert varð eftir á hvalnum, gat áhöfn Þórs haldið aftur um borð í varðskipið. Hvalnum virtist ekki verða meint af og var frelsinu feginn.

Nýtt viðbragðsteymi fyrir hvali í neyð var stofnað síðasta vor. Teymið er skipað fulltrúum Matvælastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar, Háskóla Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið teymisins er að nýta sérfræðiþekkingu hlutaðeigandi aðila til að auka skilvirkni björgunaraðgerða vegna hvala í neyð.

Teymið var fyrst virkjað þegar 50 grindhvalir strönduðu á Reykjanesi í ágúst í fyrra. Útgáfa nýrrar viðbragðsáætlunar fyrir hvali í neyð er í smíðum hjá teyminu sem mun leysa af hólmi núgildandi verklagsreglur um hvalreka, hvað varðar lifandi dýr.

Sjá hér

 

 

Deila: