-->

Íslensk straumbauja fannst við Færeyjar

Fyrir nokkru síðan urðu fiskeldismenn hjá Bakkafrosti varir við bauju sem rekið hafði inn á Haraldssund í Færeyjum.  Þegar nánar var skoðað kom í ljós að þetta var íslensk straumbauja sem hafði verið sett út norðan víð Ísland 2017.

Baujan var tekin í land og haft var samband við hafrannsóknastofnun Færeyja, sem ekki kannaðist við krógann. Veiðarfæragerðin Vónin fluttu baujuna til Þórshafnar, en hvorki nafn né heimilisfang fannst á henni. Nánari rannsóknir leiddu svo til þess að Hafrannsóknastofnun á Íslandi átti baujuna.

Baujan var sett út norðarlega á Hornbanka í ágúst 2017 til straummælinga og átti að sækja hana um sumarið 2018. Þá náðist ekkert samband við hana og því fannst hún ekki eins og til stóð. Í baujunni var staðsetningarbúnaður til sendingar um gervihnött til að gefa upp hnattstöðu svo boð kæmu um að hún væri ekki á réttum stað. Einhverra hluta vegna virkaði búnaðurinn ekki, en baujan hafði slitnað frá umfangsmeiri búnaði sem hún var tengd við.

Markmiðið við að leggja baujuna út á Hornbanka ásamt þremur öðrum baujum, var að mæla streymi Golfstraumsins úr Atlantshafi norður fyrir Ísland og yfir í Norðurhöf. Golfstraumurinn hefur mikla þýðingu fyrir vistkerfið og veðurlag á norðanverðu Íslandi. Straumurinn fer einnig norður um Færeyjar í gegnum Hjaltlandsrennuna. Hafrannsóknastofnum Færeyja hefur mælt strauminn við Færeyjar síðan 1997 og er í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina í Aberdeen í Skotlandi.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Virkt ábendingarkerfi  hjá Faxaflóahöfnum

Virkt ábendingarkerfi hefur verið hjá Faxaflóahöfnum allt frá árinu 2016. Í gegnum kerfið er unnið að umbótaverkefnum sem leiða...

thumbnail
hover

Ertu öruggur um borð?

Vinnslustöðin, FISK Seafood og VÍS hafa hrundið af stokkum átaksverkefni sem ætlað er að beina kastljósum að öryggismálum á ski...

thumbnail
hover

Síldin sækir til vesturs 

Mun meira var að sjá af norsk-íslenskri síld og kolmunna í nýafstöðnum rannsóknarleiðangri færeyska rannsóknaskipsins Jákups Sv...