Með 150 tonn af rígaþorski af Dorhnbanka

172
Deila:

Akurey RE landaði um síðustu helgu 150 tonn af rígaþorski, sjö til tuttugu kíló hver fiskur. Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey, segir í samtali við Auðlindina, að þeir stærstu hafi verið hálfgerð skrímsli, en aflinn fékkst í síðustu viku úti á Dorhnbanka  við miðlínuna milli Íslands og Grænlands. Mikill fjöldi togara var þá á svæðinu, en í gær hafði veiðin dottið niður og var Eiríkur að hífa og færa sig annað.
„Þetta var alveg mokveiði og einnig gott í gær, en nú er þetta dottið niður. Svo er eitthvað af ýsu að ganga inn á svæðið. Ég heldi ekki að þarna hafi verið um einhverja Grænlandsgöngu að ræða. Þetta er bara íslenskur þorskur, sem fer yfir til Grænlands og heldur sig mikið þar. Þetta er sami fiskurinn og Evrópusambandsskipin hafa verið að veiða eins til dæmis Cuxhaven og Ilivileq, hinum megin við línuna.  Þetta er bara vertíðarfiskurinn okkar,“ sagði Eiríkur.
Hann segir mikið að skipum hafi verið á svæðinu, til dæmis öll Samherjaskipin, Málmey og flestir af 29 metra togurunum. Þegar best lét hafi skipin verið allt að 15, en Björgvin hafi verið fyrstur á svæðið.

Spurður hvort þeir hefðu orðið við loðnu á svæðin, sagði hann svo ekki vera. „Það er engin loðna í fiskinum, en hann er mjög vel haldinn, alveg svakaleg lifur í honum, rosalega fín lifur. Það smokkfiskur í honum, smárækja og guldepla. Það sést ekki loðna hérna á svæðinu.“

Deila: