Mikil aukning hagnaðar hjá Ísfélagi Vestmannaeyja

Deila:

Rekstur Ísfélags Vestmannaeyja gekk vel á árinu og jukust tekjur og afkoma mikið frá fyrra ári sem skýrist einna helst af loðnuvertíð á árinu 2021 en ekki voru stundaðar loðnuveiðar síðustu tvö ár þar á undan. EBITDA jókst um 27 milljónir dollara, 3,7 milljarða íslenskra króna og vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 20,4 milljónir dollara, 2,8 milljarða króna. Á árinu fjárfesti félagið í uppsjávarskipunum Suðurey VE11 og Álsey VE2.

Tekjur Ísfélagsins á síðasta ári voru 17,5 milljarðar króna en árið áður voru þær um 11 milljarðar króna. Hagnaður af rekstrinum 2021 var 5,5 milljarðar króna, en var 1,9 milljarðar árið áður. Eignir í árslok voru metnar á 42,4 milljarða króna, en í árslok 2020 voru þær 39,7 milljarðar. Eigið fé hækkaði á milli ára úr 20,3 milljörðum króna í 24,8 milljarða. Eiginfjárhlutfall hækkaði úr 51,1% í 58,4%.

Stjórn félagsins leggur til að 15.000.000 dollarar,  um 2 milljarðar íslenskra króna, verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2022, en vísar að öðru leyti í ársreikninginn um breytingar á eigin fé félagsins og ráðstöfun hagnaðar.

Stjórnendur félagsins hafa metið áhrif COVID-19 faraldursins á rekstur og reikningsskil félagsins sem óveruleg. Vegna eðlis starfseminnar hefur faraldurinn ekki haft teljandi áhrif á tekjur og afkomu félagsins eða getu þess til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Félagið hefur ekki nýtt sér nein þeirra úrræða sem stjórnvöld hafa boðið til að mæta áhrifum COVID-19.

Stjórnendur hafa metið hugsanleg áhrif á virðisrýrnun efnislegra og óefnislegra eigna og telja að ekki séu til staðar vísbendingar um virðisrýrnun. Þá hefur verið tekið tillit til væntra áhrifa á innheimtanleika krafna sem eru að mati stjórnenda óveruleg.

„Í lok febrúar 2022 hófst innrás Rússlands í Úkraínu. Ísfélagið hefur í gegnum árin átt í töluverðum viðskiptum við fyrirtæki í Úkraínu en um þriðjungur frosinna uppsjávarafurða félagsins hafa verið seld þangað síðastliðin ár. Mikil óvissa er um þróun markaða í Úkraínu en eins og sakir standa er erfitt að meta möguleg áhrif á viðskipti og fjárhagslega stöðu Ísfélagsins vegna ástandsins í Úkraínu. Fjárhagsleg staða félagsins er sterk og engin hætta á að stríðsátökin hafi áhrif á rekstrarhæfi þess,“ segir meðal annars í ársreikningi félagsins.

Deila: