Nýjar útgáfur af sjókortum

244
Deila:

Á fyrrihluta ársins 2020 voru nýjar útgáfur af sjö sjókortum gefnar út. Meðal þeirra eru þrjú sjókort sem ná m.a. yfir suðurhluta Breiðafjarðar. Um er að ræða hafnakortið af Stykkishólmi (1:10 þús.), aðsiglingakort í 1:50.000 af ströndinni og hafsvæðinu milli Ólafsvíkur til Stykkishólms. Þriðja sjókortið, Hjörsey – Stykkishólmur, er í flokki strandsiglingakorta í 1:100.000. Kortið nær yfir hafsvæðið beggja vegna Snæfellsness, frá Hjörsey á Mýrum í Breiðasund austan Stykkishólms.

Mikil vinna var lögð í endurskoðun kortanna og fór í hana verulegur tími. En hún fól m.a. í sér rækilega yfirferð allra dýptarmælinga sem til eru. Einnig var ströndin auk eyja og skerja vandlega yfirfarin. Til þessa verks var notaður loftmyndagrunnur frá Loftmyndum ehf.

Þegar nálgaðist lok mælingatímabilsins sjómælingaskipsins Baldurs sumarið 2019 voru aðsiglingaleiðirnar inn til Stykkishólm endurmældar. Ný fjölgeislamæling leiddi í ljós að nokkuð grynnra var á siglingaleiðinni norðan frá Elliðaey til hafnar en voru í sjókorti. Breyttu dýpi var komið á framfæri í Tilkynningum til sjófarenda sem gefnar voru út 15. nóvember 2019 (5/2019).

Sjókortavefsjá sem opnuð var formlega í desember 2019 hefur nú verið uppfærð með þessum nýju útgáfum auk annarra nýrra útgáfa sjókorta á liðnum mánuðum s.s. hafnakortanna af Dalvík, Grindavík og Þorlákshöfn – sjá: https://atlas.lmi.is/mapview/?application=LHG

Deila: