Óska eftir undanþágu frá vinnsluskyldu

Deila:

Bæjarráð Akureyrar hefur óskað eftir því að veitt verði undanþága frá reglugerð um úthlutun byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Vinnsluskylda á byggðakvóta verði felld niður í sérreglum Akureyrarbæjar um úthlutun byggðakvóta í Grímsey.

Rökin fyrir beiðninni voru bókuð í fundargerð síðasta fundar bæjarráðs. „Grímsey hefur verið skilgreind sem brothætt byggð og er hluti af samnefndu verkefni á vegum Byggðastofnunar. Í dag er engin vinnsla starfandi í Grímsey en landaður afli er umtalsverður og er hann fluttur í burtu til vinnslu í landi.“

„Ekki hefur verið talinn grundvöllur til að reka vinnslu í eyjunni með það magn sem þar kemur á land í dag. Í dag eru nánast allir þeir sem stunda sjósókn og landa í Grímsey búsettir í eyjunni og allar útgerðirnar sem þar landa eru með lögheimili í eyjunni,“ segir einnig í bókuninni.

Bæjarráð telur það þjóna hagsmunum byggðarinnar í Grímsey að vinnsluskyldan verði felld niður í ljósi núverandi stöðu. Annars yrði engum byggðakvóta úthlutað í eyjunni.

Deila: