Rúmlega tvöföld eftirspurn í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar hf.

281
Deila:

Vel heppnuðu almennu hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar lauk klukkan 16:00 þann 12. maí 2021.

Útgefið hlutafé í Síldarvinnslunni nemur 1.700 milljónum hluta. Í útboðinu voru boðnir til sölu 447,6 milljónir hluta af áður útgefnum hlutum. Rúmlega tvöföld eftirspurn var frá bæði almenningi og fagfjárfestum og nýttu seljendur sér heimild til að fjölga seldum hlutum í útboðinu um 51 milljón hluta. Seljendur samþykktu áskriftir fyrir 498,6 milljónir hluta eða 29,3% af hlutafé félagsins. Ráðgjafi Síldarvinnslunnar er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.

  • Nær 6.500 áskriftir bárust fyrir um 60 milljarða króna.
  • Í tilboðsbók A var endanlegt útboðsgengi 58 krónur á hlut. Áskriftir á útboðsgengi í tilboðsbók A eru ekki skertar undir 1 milljón króna að kaupverði. Skerðing áskrifta á útboðsgengi í tilboðsbók A er að öðru leyti hlutfallsleg.
  • Í tilboðsbók B var endanlegt útboðsgengi 60 krónur á hlut. Skerðing áskrifta var í samræmi við skilmála útboðsins. Fjárfestar sem tilgreindu lægra útboðsgengi fengu ekki úthlutað.
  • Söluandvirði nam 29,7 milljörðum króna.

Fjöldi hluthafa í Síldarvinnslunni verður tæplega 7.000 í kjölfar útboðsins.

Þátttakendur í útboðinu geta nálgast upplýsingar um úthlutun í útboðinu, eigi síðar en í lok dags 14. maí 2021 með því að fara inn á áskriftarvef útboðsins á vefsíðu Landsbankans hf., landsbankinn.is/sildarvinnslan, og nota sömu aðgangsauðkenni og þeir notuðu til að skrá áskrift sína í útboðinu.

Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er 20. maí 2021 og er áætlað að afhenda kaupendum hluti í Síldarvinnslunni þann 26. maí 2021 að undangenginni greiðslu.

Áætlað er að viðskipti með hlutabréf í Síldarvinnslunni hefjist 27. maí 2021 en Nasdaq Iceland mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með hlutabréfin með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhuga almennings og fagfjárfesta á sjávarútvegi sem kristallast í niðurstöðum útboðsins.

Ég vil bjóða nýja hluthafa velkomna í Síldarvinnsluna og þakka það mikla traust sem þeir hafa sýnt félaginu og starfsfólki þess.

Með fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll verður Síldarvinnslan með þá sérstöðu að vera eina skráða félagið með höfuðstöðvar á landsbyggðinni,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf.

 

 

Deila: