Norðursjávarþorskurinn vottaður af MSC

Deila:

Veiðar úr þorskstofninum í Norðursjó hafa nú verið vottaðar opinberlega sem sjálfbærar og falla þá niður þær hömlur, sem verið hafa á sölu afurða úr þorskinum í helstu stórmörkuðum. Þessarar vottunar frá Marine Stewardship Council hefur verið vænst um tíma. Ákvörðunin felur í sér meiriháttar sóknarfæri fyrir sjávarútveginn á Bretlandseyjum, þar sem vottunar um sjálfbærni hefur víðast verið krafist við sölu afurðanna. Þá mun vottunin styrkja útveginn við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Staða þorskins í Norðursjó nú er alger andstaða þess sem var fyrir rúmlega einum áratug. Þá var stofninn metinn í sögulegu lágmarki. Talsmenn MSC segja að vottunin nú sýni að veiðar enskra og skoskra báta séu sjálfbærar og rekjanlegar.

Þorstofnarnir í Norðursjó voru taldir um 280.000 tonn fyrir 40 árum, þegar tímabil hnignunar hófst vegna ofveiði og stofnstærðin fór niður í 40.000 tonn. Á áttunda áratug síðustu aldar voru gerðir út yfir hundrað bátar á þorskveiðar frá Grimsby, nú má telja þá á fingrum beggja handa. Uppbyggingarferli þorsksins hófst hjá breskum fiskimönnum fyrir meira en áratug, og er ekki annað sjá en vel hafi til tekist.

Fulltrúar MSC segja að tilkynningin um vottun á sjálfbærni þorskveiða í Norðursjó, sé tímamóta atburður fyrir sjávarútveginn og sýni árangur samvinnu samtaka sjómanna, útvegsmanna, fiskverkenda, súpermarkaða og samtakanna Seafish.

Deila: