Hverastrýtur breyttust í flak

Deila:

Fallegar hverastrýtur sem virtust koma fram í mælingum á Tálknafirði reyndust vera annað. „Þær risu þar um 10-12 m háar upp af sléttum fjarðarbotninum á 40 m dýpi skammt utan við Sveinseyri, fallegar og fínar og minntu skemmtilega á skip á siglingu. Þær voru merktar inn á jarðhitakortið  sem nýr jarðhitastaður. Í framhaldinu leiddi það sem var svo skemmtilegt við strýturnar til þeirrar óskemmtilegu niðurstöðu að þetta var í raun skipsflak sem minnti á hverastrýtur en ekki hverastrýtur sem minntu á skipsflak,“ segir í frétt á heimasíðu Íslenskra orkurannsókna.

„Þetta mun vera stálskipið Þrymur BA-7 sem lengi hafði legið upp í fjöru á hafnarsvæðinu á Tálknafirði en hvarf þaðan um dimma nóvembernótt árið 1997 og sást aldrei meir. Málið var umtalað og rannsakað sem sakamál á sínum tíma en upplýstist illa. Þessi niðurstaða olli vonbrigðum því óneitanlegra hefði verið skemmtilegra að finna hverastrýtur og jarðhita heldur en gamalt draugaskip.

Þessi niðurstaða olli vonbrigðum því óneitanlegra hefði verið skemmtilegra að finna hverastrýtur og jarðhita heldur en gamalt draugaskip,“ segir á síðunni.

Á ÍSOR er unnið að jarðfræðikortlagningu á hafsbotninum umhverfis landið. Kortlagningin byggir m.a. á fjölgeislamælingum sem gerðar hafa verið víða við landið og úti á rúmsjó á undanförnum árum af Landhelgisgæslunni, Hafrannsóknarstofnun og fleiri aðilum. Ýmiskonar fyrirbrigði eru sýnd á þessu kortum, m.a. botngerð, hverastrýtur og önnur ummerki um virkan og kulnaðan jarðhita, ummerki lægra sjávarborðs, neðansjávarskriður, farvegir, jökulgarðar, sprungur og misgengi, berggangar, för eftir borgarísjaka og ýmislegt fleira.

Fram að þessu hefur einungis verið vitað um hverastrýtur, þar sem ferskt en heitt vatn streymir úr iðrum jarðar, í Eyjafirði.  Nú hafa komið fram vísbendingar um slíkar strýtur víðar m.a. í Hvalfirði.

Deila: