Sprengidagurinn hófst með loðnuhvelli
Eyjólfur Guðjónsson og áhöfn hans á Ísleifi VE-63 komu í gær með fyrsta loðnufarminn til Vestmannaeyja á vertíðinni, 250 tonn af fínum og átulausum fiski sem veiddist út af Hornafirði daginn áður. Frá þessu er sagt á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Þar segir ennfremur:
Það ríkir alltaf stemning og eftirvænting til sjós og lands þegar loðnuvertíð hefst. Vel mátti skynja spennu í lofti í nýju uppsjávarfrystihúsi Vinnslustöðvarinnar þegar sást til Ísleifs í morgunskímu og snjófjúki í innsiglingunni.
Flókinn og margslunginn vél- og tæknibúnaður í flokkun og pökkun frystihússins skilaði því sem af honum var ætlast. Slíkt er ekki alveg sjálfgefið þegar mest á ríður. Mönnum létti þegar allt gekk eins og í sögu.
Fulltrúar japanskra kaupenda loðnuafurða komu til Eyja í gærkvöld og voru mættir á hafnarbakkann laust eftir rismál. Þeir deila frumsýningarstemningu með heimamönnum í dag.
Ísleifur VE hét áður Ingunn AK 150, gerð út af HB Granda. Vinnslustöðin keypti skipið sumarið 2015.
„Gott skip sem getur borið allt að 2.000 tonnum,“ segir Eyjólfur skipstjóri. „Fyrir 30 til 40 árum hefði þótt tíðindum sæta að fá 250 tonn af loðnu í tveimur köstum en nú vill maður helst ekki tala um að koma til hafnar með svo lítið í lestinni! Tímarnir eru breyttir, nú skipta hráefnisgæðin meira máli en tonnafjöldi upp úr sjó.“
Eyjólfur hefur verið til sjós í 35 ár og skipstjóri frá 1987, með sömu körlunum í áhöfn ár eftir ár.
„Það er lítil hreyfing á mannskapnum, sem betur fer. Við erum allir Eyjamenn um borð að tveimur undanskildum, annar aðkomumaðurinn er fastráðinn en hinn í afleysingum. Góður og samhæfður hópur.
Hvenær við förum aftur til veiða? Kannski á morgun. Þú verður annars að spyrja þá sem stjórna Vinnslustöðinni. Skipstjórar ráða fjandakornið engu lengur, við tökum bara við fyrirmælum úr landi!“
Annað Vinnslustöðvarskip, Kap VE, fór frá Eyjum í gærkvöld áleiðis á miðin fyrir austan land. Meiningin er að það komi til hafnar á morgun, miðvikudag, til löndunar. En auðvitað að því gefnu að viðri til veiða.
Nú er bræla en hún breytir engu um þá staðreynd að loðnuvertíð er hafin í Eyjum. Sjálfur sprengidagurinn hófst með langþráðum og umtalsverðum loðnuhvelli.“