Miklar skemmdir á Þúfu

Deila:

Miklar skemmdir urðu á umhverfislistaverkinu Þúfu á Norðurgarði við gömlu höfnina í Reykjavík í óveðrinu sem gekk yfir höfuðborgina sl. föstudagskvöld og á aðfararnótt laugardags. Mikið vatnsveður og leysingar fylgdu óveðrinu og varð það til að jarðvegur í Þúfu fór af stað með þeim afleiðingum að stórt skarð myndaðist í brekkunni.

Að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra botnfiskssviðs HB Granda, var Þúfa strax girt af og í gær áttu hann og Gísli Sigmarsson tæknistjóri fund með verkfræðingi VSÓ, sem kom að gerð Þúfu, sem og Guðjóni hleðslumanni, Ólöfu Nordal listakonu og fleirum aðilum um næstu skref.

,,Við erum að reyna að átta okkur á er hvernig megi laga Þúfu þannig að samskonar tjón endurtaki sig ekki. Niðurstaða í því máli ætti að liggja fyrir eftir einhverja daga,“ segir Torfi Þ. Þorsteinsson.

Umhverfislistaverkið Þúfa, sem er eftir listakonuna Ólöfu Nordal, var vígt 21. desember 2013 i kjölfar samkeppni um gerð listaverks. Því var komið fyrir austan Ísbjarnarins, frystigeymslu HB Granda sem þá var ný, og má segja að Þúfa marki innsiglinguna í Reykjavík að vestanverðu en Harpan að austanverðu. Þúfa hefur frá fyrsta degi verið ákveðið kennileiti fyrir gömlu höfnina í Reykjavík og mikill fjöldi ferðamanna og heimamanna skoðar listaverkið árlega.

Deila: