Áreitni og einelti verða ekki látin viðgangast

Deila:

Á fundi Síldarvinnslunnar með stjórnendum og trúnaðarmönnum innan fyrirtækisins sem haldinn var 29. desember sl. var meðal annars fjallað um áreitni og einelti á vinnustöðum. Sigurður Ólafsson verkefnisstjóri fór yfir stefnu fyrirtækisins í þeim málum og vakti athygli á að fastar yrði tekið á þeim hér eftir en hingað til.

Sigurður Ólafsson

Sigurður Ólafsson

Heimasíða Síldarvinnslunnar spurði hann út í þær reglur sem gilda eiga í framtíðinni á þessu sviði. „Með reglugerð nr. 1009 frá árinu 2015 voru þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja varðandi þessi mál bæði skýrðar og hertar verulega. Svo kemur þessi stórmagnaða #metoo umræða sem er afar þörf. Það er ljóst mál að kynferðisleg áreitni er miklu stærra og alvarlegra vandamál en marga hefur grunað. Þarna er verið að galopna umræðuna um þetta og það er jákvætt. Það er alveg skýrt að við horfum fram á breytta tíma í öllu sem snýr að samskiptum á vinnustað. Allir stjórnendur, þ.e. allir sem hafa eitthvað yfir öðru fólki að segja á vinnustað, þurfa að skilja þennan nýja veruleika og aðlaga vinnubrögð sín að honum. Þeir sem ekki gera það munu fyrr eða síðar lenda í alvarlegum vandræðum,“ sagði Sigurður.

Sigurður var spurður að því hvort frekar yrði fjallað um þessi mál innan fyrirtækisins á næstunni. „Já, ég ætla á þessu nýbyrjaða ári að hitta alla lykilstjórnendur og fara yfir stöðuna á hverjum vinnustað og skoða hvernig best er að tryggja að áðurnefndri reglugerð verði fylgt. Við ætlum og eigum að byggja upp fagleg samskipti á öllum okkar vinnustöðum og við munum veita stjórnendum bæði aðhald og stuðning. Það verður að tryggja að allir séu á sömu blaðsíðu og viti hvernig á að fyrirbyggja og síðan meðhöndla þessi mikilvægu og viðkvæmu mál ef þau koma upp. Einnig er ætlunin að fræða almenna starfsmenn um þessi málefni þannig að allir á vinnustöðunum séu meðvitaðir og upplýstir. Samhliða öllu þessu þurfum við svo að gera áætlanir um það hvernig má efla jafnrétti og einn mikilvægur þáttur í því verður að fara í gegnum svonefnt jafnlaunavottunarferli. Það eru því spennandi verkefni framundan og þau miða að því að bæta enn frekar upplifun fólks af því að vinna hjá Síldarvinnslunni og það mun hafa jákvæð áhrif á alla starfsemi,“ sagði Sigurður að lokum.

 

Deila: