Stöðugleiki framundan

Deila:

„Ég er bara þokkalega sáttur við stöðuna í þorskinum. Stofninn virðist standa vel og stöðugleiki virðist vera framundan svo langt sem þeir sjá. Það hefur ekki komið jafnskýrt fram á undanförnum árum eins og nú. Það ánægjulegt að horfa upp á það,“ segir Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, um tillögur Hafró um heildarafla á komandi fiskveiðiári.

Þá er mikil aukning í ýsu sem kemur svolítið á óvart. Sömuleiðis er 30% aukning í ufsa. Miðað við það sem maður heyrir í mönnum úti á sjó, kemur það á óvart. Þeir hafa verið að bera sig illa því erfitt hefur verið að ná í hann. Ufsinn er ein alerfiðasta tegundin til að stofnmæla. Hann hagar sér öðruvísi en önnur kvikindi í sjónum. Hann er ekki staðbundinn, er mikið á ferðinni og kemur og fer. Hann er og verður erfiðari en flestir aðrir fiskar í stofnmælingu.

Árni segir einnig að hann sé ánægður með aukningu í djúpkarfa. Heimildir í honum hafi verið tálgaðar niður undanfarin ár. Hins vegar komi á óvart lækkun í gullkarfa því heyrst hafi um stöðugan vöxt í honum undanfarin ár og auðveldara hafi verið að nálgast hann. Þá segir Árni áhyggjuefni að enn virðist sýking vera viðvarandi í síldarstofninum, sem standi vexti stofnsins fyrir þrifum. Ég vona svo sannarlega að það lagist,“ segir Árni Bjarnason.

Á myndinni eru Árni Bjarnason, formaður félags Skipstjórnarmanna, og Valmundur Valmundsson og Hólgeir Jónsson, forustumenn sjómannasambands Íslands.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: