11% samdráttur aflverðmætis í mars

Deila:

Aflaverðmæti íslenskra skipa úr sjó nam tæpum 13,8 milljörðum króna í mars. Verðmæti botnfiskaflans var um 9,7 milljarðar króna og þar af var verðmæti þorskaflans rúmir 6,4 milljarðar. Aflaverðmæti uppsjávartegunda var tæpir 3,2 milljarðar króna og var að mestu leyti loðna. Verðmæti flatfiskafla nam tæplega 820 milljónum króna og verðmæti skelfiskafla tæpum 116 milljónum.

Aflaverðmæti í febrúar 2018 var níu milljarðar króna.

Á 12 mánaða tímabili, frá apríl 2017 til mars 2018, nam aflaverðmæti úr sjó tæplega 119 milljörðum króna og stendur því í stað sé miðað við sama tímabil ári fyrr samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

Þegar tölur Hagstofunnar um aflaverðmæti í mars eru bornar saman við fiskaflann, kemur í ljós að samdráttur í verðmæti er 11% en fiskaflinn dróst saman um 22% eða tvöfalt meira. Það bendir bæði til þess að verð á einstökum fiskitegundum hafi verið hærra nú og að samsetning heildaraflans hafi sömuleiðis verið hagstæðari nú.

Botnfiskafli í mars varð 52.299 tonn í mars og dróst saman um 6% miðað við sama tíma í fyrra. Verðmæti landaðs botnfisks í dróst þó aðeins saman um 1,2%. Sé aðeins litlið á þorskinn, dróst aflinn saman um 8% en verðmæti hans um 3,6%. Draga má þá ályktun af þessu að þeirri verðlækkunarþróun, sem staðið hefur yfir í meira en ár, sé lokið og verð farið að hækka á ný.

Mestar breytingarnar milli mánaða eru í uppsjávarfiskinum. Uppsjávarafli, kolmunni og loðna, nú varð 100.969 tonn, sem er 29% samdráttur frá sama mánuði í fyrra. Verðmæti uppsjávaraflans voru nú 3,2 milljarðar króna, sem er samdráttur um 35%. Loðnuaflinn varð 81.698 tonn, sem er samdráttur um 38%. Verðmæti hans varð 2,7 milljarðar, sem er 42% samdráttur. Þróun í afla og verðmæti hans er því svipuð.

Kolmunnaafli nú varð 19.271tonn, sem er aukning um 85%. Verðmæti þessa afla varð 445 milljónir króna, sem vöxtur um 154%. Þarna hefur verðmæti vaxið nærri þrefalt meira en aflinn, sem bendir til verulegrar verðhækkunar. Þar sem aukningin í afla  var aðeins tæp 9.000 tonn nær það ekki að vega upp á móti 50.000 tonna samdrætti í loðnu.

Verðmæti afla 2017–2018
Milljónir króna Mars Apríl-mars
  2017 2018 % 2016–2017 2017–2018 %
             
Verðmæti alls 15.463,7 13.781,8 -10,9 118.683,3 118.845,2 0,1
             
Botnfiskur 9.770,8 9.651,4 -1,2 79.711,6 84.574,7 6,1
Þorskur 6.688,2 6.447,7 -3,6 50.319,0 53.859,5 7,0
Ýsa 927,0 820,8 -11,5 8.119,6 8.761,4 7,9
Ufsi 633,3 726,3 14,7 6.975,0 7.311,0 4,8
Karfi 954,9 1.152,1 20,6 9.056,3 10.067,1 11,2
Úthafskarfi 0,0 0,0 597,4 333,3 -44,2
Annar botnfiskur 567,4 504,6 -11,1 4.644,3 4.242,4 -8,7
Flatfisksafli 609,8 819,7 34,4 7.821,4 8.383,5 7,2
Uppsjávarafli 4.913,7 3.194,9 -35,0 27.985,2 23.505,9 -16,0
Síld 0,0 0,0 6.193,2 4.504,4 -27,3
Loðna 4.738,7 2.749,7 -42,0 6.709,4 5.890,8 -12,2
Kolmunni 175,0 445,3 154,5 4.185,8 4.585,2 9,5
Makríll 0,0 0,0 10.896,7 8.525,4 -21,8
Annar uppsjávarafli 0,0 0,0 0,1 0,0 -43,7
Skel- og krabbadýraafli 169,4 115,7 -31,7 3.165,1 2.381,1 -24,8
Humar 30,9 26,0 -15,9 907,6 828,7 -8,7
Rækja 118,5 67,2 -43,3 1.909,0 1.175,0 -38,5
Annar skel- og krabbadýrafli 20,0 22,6 12,8 348,5 377,4 8,3
Annar afli 0,0 0,0 0,0 0,0

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: