Meiru af þorski landað í Færeyjum

Deila:

Landanir af fiski, öðrum en uppsjávarfiski, í Færeyjum voru svipaðar á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs og því síðasta.Alls var landað 59.327 tonnum nú, sem er aukning um 54 tonn. Verðmætið hefur aukist mun meira eða um 5%.

Mikil aukning varð á löndunum af þorski. Nú bárust á land 12.069 tonn á móti 9.280 tonnum á sama tíma í fyrra. Það er vöxtur um 30%. Ýsuaflinn nú var 3.627 tonn, sem er 715 tonnum meira en í fyrra. Aukningin nemur 24,5%. Mestu var landað af ufsa eins og jafnan. Aflinn nú var 18.238 tonn, sem er samdráttur um 1.821 tonn eða 9,1%. Fyrir vikið er heildaraukning í botnfiski aðeins 2,6%.

Alls var landað ríflega 4.000 tonnum af flatfiski, sem er samdráttur um 905 tonn. Munar þar mestu að grálúðu afli er aðeins 2.792 tonn, sem er fall um 919 tonn eða 25%

 

Deila: