Hagkvæmari gerð botntrollshlera frá Thyborøn

Deila:

Danski hleraframleiðandinn Thyborøn Trawldoors hefur hannað nýja gerð svokallaðra semi-pelagic toghlera. Miklar vonir eru bundnar við þessa nýju hönnun því skverkrafturinn er meiri með minni togmótstöðu.
Nýju Bluestream hlerarnir eru af gerðinni 23 Thyborøn semi-pelagic  og eru þeir þróaðir með reynsluna af 14 gerðinni. Vonir framleiðenda eru að þessir kraftmiklu toghlerar geti sparað umtalsverðan olíukostnað á botnfiskveiðum án þess að aflinn verði  minni. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hampiðjunnar.

Kristinn Gestsson, starfsmaður söludeildar Hampiðjunnar og nafntogaður togaraskipstjóri, fór á dögunum í reynsluferð með áhöfninni á ísfisktogara ÚA, Kaldbaki EA, þar sem hinir nýju hlerar voru reyndir í fyrsta sinn við íslenskar aðstæður. Hann segir að niðurstaðan hafi komið sjálfum sér og áhöfninni verulega á óvart.

,,Þessir nýju Bluestream hlerar eru geysilega kraftmiklir. Áhöfnin á Kaldbaki hafði verið að nota gerð 14 með góðum árangri. Þeir eru 7,5 m2  að stærð en nýju hlerarnir, sem við reyndum, eru heilum fermetra minni eða 6,5 m2. Þeir eru 3.800 kg að þyngd. Þumalfingursreglan segir að lengd milli hlera á þokkalegu togdýpi samsvari lengd grandarans og það kom heim og saman við notkun áhafnarinnar á gerð 14. Lengd grandarans var  137metrar og sama bil var á milli toghlera. Við það að skipta yfir í Bluestream hlerana, gerð 23 var grandaralengdin hin sama en bil milli toghlera jókst upp í 148 metra. Þetta var á 200 metra botndýpi og hlerarnir voru að jafnaði tvo til sjö metra  frá botni.”
Kristinn segir að mæling frá útgerðinni á olíueyðslu í veiðiferðinni hafi ekki borist en vélstjórarnir um borð hafi sagt sér að þeir hafi strax merkt umtalsverðan mun til hins betra.

,,Við hefðum getað gert enn betur og reynt sex fermetra hlera en eftir samræður milli útgerðar, skipstjóra og Thyborøn var niðurstaðan sú að prófa þessa stærð, en við erum sannfærðir um að það megi minnka hlerann enn frekar miðað við þessa stærð af trolli og þá verður ávinningur einfaldlega meiri.

,,Við vorum allan tíman fyrir austan. Byrjuðum í brælu í Berufjarðarálnum og náðum þar um 50 tonn af karfa og eitthvað af ufsa . Svo fengum við um 130 tonn af þorski á Fætinum og þar um kring á þeim tíma sem eftir var. Alls var aflinn því um 200 tonn eftir sex daga,” segir Kristinn Gestsson.

Deila: