Áhafnirnar á Sandfelli moka upp fiski á línuna

Deila:

„Þetta gengur vel með samstilltum mannskap á sjó og í landi,“ segir skipstjórinn á aflabátnum Sandfelli, Örn Rafnsson. Þeir lönduðu 2.400 tonnum í fyrra og eru komnir í um þúsund tonn það sem af er þessu fiskveiðiári og í janúar lönduðu þeir 270 tonnum.  „Og okkur hefur gengið alveg ljómandi vel. Við erum með nægan kvóta og fengið að vera nánast í frjálsum veiðum allt árið. Segja má að það sé sjaldgæfur lúxus í dag enda höfum við haft nægan kvóta í þorski og ýsu og ekkert þurft að spá í kvótastöðu. Svo kom verkfallið inn 2017, sem stoppaði okkur og þá var mikill kvóti færður á milli ára. Þess vegna þurfti að gefa svolítið í eftir það,“ segir Örn.

Afli Sandfellsins, sem er beitningarvélabátur í krókakerfinu, tæp 30 tonn að stærð, hefur farið jafnt og þétt vaxandi frá því það kom austur. Báturinn hét áður Óli á Stað og var keyptur frá Stakkavík í Grindavík fyrir um þremur árum. Áhöfnin fylgdi með. Aflinn var 2.400 tonn á síðasta ári og er kominn í um þúsund tonn nú á þessu fiskveiðiári. Almanaksárið byrjar svo heldur betur vel og í janúar varð aflinn 270 tonn.

„Þetta hefur gengið alveg svakalega vel. Tíðin hefur verið góð. Við höfum getað róið mikið og fiskirí verið mikið og stöðugt og róið nánast alla daga,“ segir Örn.

Áhöfn Arnar með eina af tertunum frá Loðnuvinnslunni. Auk Arnar skipa þessa áhöfn þeir Marsi, Alexander Vilhjálmsson og Róbert Gils Sigurðsson.

Tvær áhafnir á bátnum

„Tvær áhafnir eru á bátnum og við erum fjórir í hvorri áhöfn. Við skiptum þessu niður á hálfan mánuði á sjó og hálfan í landi. Alltaf skipt á fimmtudögum. Þegar gefur á sjó er landað á hverjum degi og er róðurinn um það bil einn sólarhringur, 18 til 24 tímar en ræðst þá af því hve löng sigling er á miðin. Þegar það er veður er bara landað og farið út strax aftur. Yfirleitt er farið út svona sjö til 10 á kvöldin, stundum fyrr á sumrin. Eftir löndun er keyrt á miðin og byrjað að leggja og að því loknu er yfirleitt tekin bauja, frá tveimur upp í fimm til sex tíma yfir hánóttina. Við byrjum svo að draga á morgnana og erum um átta tíma að því en tvo og hálfan til þrjá tíma að leggja. Fiskurinn er blóðgaður í kör með ískrapa til hámarka gæðin. Svo er bara farið í land til að landa og út strax aftur ef það er veður.

Báðar áhafnirnar vinna mjög vel saman. Það er alltað séð til þess að allt sé í lagi þegar hin áhöfnin kemur. Það sé ekkert bilerí eða vesen sem menn þurfa að byrja að fást við, þegar þeir mæta um borð. Við höldum alveg til um borð, líka í brælum. Þar er góð aðstaða fyrir okkur. Hver maður með sinn klefa, setustofu og eldunaraðstöðu og okkur líkar þetta bara betur en að vera með íbúð í landi. Þetta skiptikerfi er líka að koma mjög vel út. Menn gefa sig að þessu í 15 daga á fullu vitandi að þeir eru að fara í 15 daga frí og koma svo úthvíldir aftur í næstu törn,“ segir Örn.

Í hinni áhöfninni eru tveir synir Arnar, Rafn skipstjóri, og Þórarinn vélstjóri, og þeir Ari Sveinsson og Sveinbjörn Sæmundsson.

19.000 krókar lagðir í hverjum róðri

Báturinn er með beitningarvél og eru þeir með 19 rekka sem eru um 2,80 metrar að lengd. Um 1.100 krókar eru á hverjum rekka. Þetta eru því um 19.000 krókar sem lagðir eru í hverjum róðri.  „Svona með góðu móti getum við tekið 16 til 18 tonn í körum í róðri. Það hefur aldrei komið fyrir að við höfum ekki getað klárað að draga en við höfum sett mest í hann um 23 tonn. Það var þá eftir tvær lagnir. Við tókum þá helgi að sumri til og drógum tvisvar í sama róðrinum. Við erum nú ekki alltaf að gera góða túra þó vel gangi. Það var afspyrnu lélegt hérna í febrúar í fyrra þegar loðnan gekk yfir fyrir austan og stóð lengi. Við fórum því vestur að Reykjanesi í byrjun mars í fyrra og rérum frá Grindavík fram í byrjun maí. Þá færðum við okkur aftur austur. Við erum nánast eingöngu fyrir austan, frá Stokksnesi og norður að Langanesi. Það er okkar veiðisvæði að öllu jöfnu. Stímið er allt frá því að vera klukkutími upp í sex klukkutíma er róið er langt út í kanta eða langt norður eftir.“

Góð fiskigengd fyrir austan

Örn segir að almennt sé hafi fiskigengdin verið góð fyrir austan yfir allt árið. Það hafi bara verið mikið af fiski fyrir austan, bæði úti í köntunum og svo á grunnunum. Því hafi bara gengið vel að fiska þarna, en hvort þetta sé meira eða minna en áður, viti hann ekki. Hann sé tiltölulega nýlega byrjaður að róa þarna fyrir austan. Töluvert af beitningarvélabátum rær fyrir austan hluta af árinu, bæði heima- og aðkomubátar. Þeir halda sig þá fyrir austan frá vori og fram undir áramót eða lengur en koma svo vestur yfir veturinn.

Loðnuvinnslan vinnur allan þorskinn, en ýsan fer á markað og steinbítur og annað sem slæðist með. Fiskurinn er unninn ferskur til útflutnings og fer að mestu leyti utan með Norrönu og Eimskip í gámum og bílum.

Afspyrnulélegt fiskverð í sumar

Þeir á Sandfellinu fá borgað fyrir fiskinn sem fer til vinnslu samkvæmt svokölluðu Verðlagsstofuverði, sem er lágmarksverð í beinum viðskiptum með fisk til vinnslu. Annars fiskur fer á markað og greitt fyrir hann miðað við það. Örn segir að fiskverðið hafi verið afspyrnu lélegt í sumar en hafi þó farið nokkuð hækkandi í haust. Það vanti samt á verðið í viðbót svo það sé ásættanlegt, en það sé enn á uppleið. Hann segir þó að búast megi við því þegar kemur fram á vertíðina að verðið lækki eitthvað eins og alltaf þegar vertíðarfiskurinn frá Noregi flæðir inn á markaðina í Evrópu.

Kjartan Reynisson, útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar, afhendir Erni Rafnssyni, skipstjóra, tertu í tilefni 2.400 tonna afla.

Líkar vel að róa fyrir Loðnuvinnsluna

„Okkur líkar mjög vel að róa fyrir Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði. Þetta eru frábærir karlar og frábær útgerðarstjóri sem stendur mjög þétt með okkur. Okkur er vel sinnt og báturinn stendur sig vel enda er Loðnuvinnslan búin að gera margt gott fyrir hann síðan þeir keyptu hann. Hann hefur verið tekinn reglulega í slipp og þar hefur ekkert verið til sparað til að gera hann betri.

Við erum einnig með mjög góða beitu, sem er norsk-íslensk síld, sem þeir veiða og frysta sjálfir. Í haust sóttu þeir síld í Seyðisfjarðardýpið og voru ekki nema þrjá tíma með hana í land og beint í frystingu. Ferskari og betri beitu er varla hægt að fá. Hún hefur komið mjög vel út hjá okkur og það er að skila sér í auknum afla. Við erum því nánast eingöngu með „dræ“ síld í beitu,“  segir Örn Rafnsson.

Seldir með bátnum!

Örn Rafnsson er Reykvíkingur að uppruna. Hann kom til Grindavíkur 16 ára á vertíð að hausti til. Hann byrjaði hjá Hópsnesi á Hópsnesi GK með Jens Óskarssyni skipstjóra. Hann var hjá þeim alveg til 96 og var á Höfrungi II líka, sem þeir áttu þá, en Þórður Pálmason var skipstjóri þar.  Þá fór hann tvö ár í land að vinna hjá sjálfum sér. 1997 byrjaði hann hjá Stakkavík og  1998 tók hann við trillu hjá Stakkavík. Hann var hjá þeim til 2016, síðast með Óla á Stað GK sem var seldur austur á Fáskrúðfjörð og áhöfnin fylgdi með. „Segja má að áhafnirnar hafi verið seldar með,“ segir Örn.

 

 

Deila: