Strandveiðar ganga betur en í fyrra

Deila:

Strandveiðar hafa gengið betur í ár en í fyrra. Aflinn frá maíbyrjun er 4.383 tonn, en á sama tíma í fyrra var hann 3.751 tonn. Það sem af er júní er aflinn 2.040 tonn, sem er tæplega 200 tonna vöxtur. Leyfilegur heildarafli af þorski er 11.100 tonn og er ríflega þriðjungur þess kominn á land. Veiðitímabilið er rétt tæplega hálfnað.

Eins og undanfarin ár er aflinn mestur á svæði A enda bátar þar flestir. Aflinn nú er tæplega 2.100 tonn. Það er 222 tonna aukning eða um 11% vöxtur miðað við sama tíma í fyrra. Bátarnir eru rétt ríflega 100, nánast sami fjöldi og í fyrra. Landanir eru 3.141 og afli á bát að meðaltali er 9,6 tonn.
Á svæði B er aflinn nú orðinn 674 tonn, sem er aukning um 125 tonn eða 19%, Bátarnir eru 23 nú sem er sex bátum fleiri en í fyrra. Landanir eru 1.152  og afli á bát að meðaltali 6 tonn.
Afli á svæði C er orðinn 553 tonn, sem er vöxtur um 39 tonn eða 7%. Landanir eru 872. Bátarnir eru 17 eins og í fyrra og afli á bát að meðaltali er 6 tonn.
Afli hefur aukist mest hlutfallslega á svæði D. Hann er nú 1.071 tonn, sem er 23% vöxtur. Landanir eru 1.626. Bátarnir á þessu svæði eru nú 43, en voru 35 í fyrra. Meðalafli á bát nú er 8,2 tonn.

 

 

Deila: