Kolmunninn virðist ekki þétta sig
Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur hafa verið að kolmunnaveiðum í íslenskri lögsögu austur af landinu síðustu daga. Beitir kom til hafnar á þriðjudag með 700 tonna afla og Börkur í fyrrinótt með um 540 tonn. Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að sáralítið af kolmunna hafi verið að sjá.
„Við tókum fjögur hol á Rauða torginu og austan við það og þetta var ósköp slakt,“ segir Sturla í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, tekur undir með Sturlu. „Það var ansi lítið að sjá þarna og aflinn er ekki mikill eftir sex daga. „Í fyrra komu ágætir dagar á þessum slóðum í júlímánuði en kolmunninn hagar sér með öðrum hætti í ár og virðist ekki þétta sig. Allavega hafa ekki komið góðir veiðidagar ennþá núna,“ segir Hálfdan.