Rólegt yfir makrílveiðinni

Deila:

,,Makrílveiðin fer að vanda rólega af stað. Við fengum 300 tonn í fjórum holunum sunnan og suðaustan við Vestmannaeyjar en svo brældi þannig að ákveðið var að fara með þennan afla til Vopnafjarðar,“ sagði Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, er rætt var við hann upp úr hádegi í gærdag á heimasíðu HB Granda. Átti Bergur von á því að vera kominn til Vopnafjarðar fyrir miðnætti.

Makrílvertíðin í íslenski lögsögu er formlega hafin og mega skipin veiða samtals 140 þúsund tonn af makríl samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Bergur segir makrílinn stóran og líta vel út en hann eigi þó eftir að bæta á sig fitu. Að jafnaði var makríllinn í þessum fjórum holum 420 til 460 grömm að þyngd.

,,Það er vindstrengur með allri suðurströndinni og bræla í augnablikinu. Ég veit að áhöfnin á Víkingi AK, sem fór á miðin í gær, bíður átekta eftir því að veðrið gangi niður og þótt við höfum leitað austur kantinn á leiðinni frá veiðisvæðinu þá hefur ekki viðrað til veiða.“

Bergur er með Venus í sínum fyrsta túr en hann var áður skipstjóri á Hoffelli SU. Því er eðlilegt að spyrja Berg að því hvernig hann kunni við skipið.

,,Þetta er eins og draumur. Hér er allt stærðarflokk fyrir ofan Hoffellið, sem vel að merkja er mjög gott skip. Manni líður eins og vera kominn um borð í skemmtiferðaskip en ég geri mér grein fyrir því að ég á eftir að læra betur á skipið. Það verður heilmikið verkefni,“ segir Bergur Einarsson.

 

 

Deila: