Kjartan svarar „rógburði” SFS fullum hálsi

Deila:

Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, svarar á Vísi í dag grein sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, birti þar í gær um strandveiðar. Í grein sinni viðraði Heiðrún Lind þá skoðun að varhugavert væri að auka kvóta til strandveiða.

Kjartan Páll segir í grein sinni að nú sé sá tími farinn í hönd þar sem áróðursmaskína SFS fari í yfirsnúning, og vitnar til upphafsorða í grein Heiðrúnar. Hann bendir á að kerfi sem byggir á framsali aflaheimilda sé ekki náttúrulegmál og að meirihluti Íslendinga telji íslenskan sjávarútveg spilltan, mengandi og skapi varðmæti fyrir fáa. Frávik af þessum einkennum ættu því að vera af hinu góða.

„Hún talar eins og að óbreytt ástand sé náttúrulögmál sem ómögulegt sé að hrófla við, því þá væri verið að ögra guðdómlegu jafnvægi hlutanna. Stærri sneið strandveiða af kökunni myndi einfaldlega þýða fleiri störf í brothættum byggðum, óháð duttlungum stórútgerðarinnar. Þetta er Heiðrúnu eflaust illskiljanlegt, enda hefur hún sagt að það að treysta byggðir í landinu sé „í sjálfu sér ekki sjálfstætt markmið, og mér finnst það að vissu leiti ósanngjörn umræða þegar þannig er talað að það sé á ábyrgð atvinnugreinarinnar að treysta byggð í landinu.“ Reynslan sýnir að kvótakóngunum þykir lítið til byggðasjónarmiða koma. Störf og afkoma einstaklinga eru lítið annað en peð á taflborði þeirra. Innan strandveiðikerfisins er það hins vegar fólkið í landinu sem stjórnar för,” skrifar Kjartan.

Heiðrún skrifaði í grein sinni að til að auka hlut strandveiða þyrfti að taka kvóta af öðrum. Kjartan mótmælir þessu. „Þetta er mikill misskilningur sem eflaust stafar af þeirri trú kvótakónganna að auðlindin okkar sé þeirra einkaeign. Hér er enginn að taka neitt af neinum. Í fyrsta lagi eru auðlindir hafsins eign íslensku þjóðarinnar, þannig að það er ekki verið að taka neitt af sægreifunum. Í öðru lagi eiga trillukarlar og konur ekkert í strandveiðikerfinu annað en bátana sína, þannig að við erum ekki að taka neitt.“

Kjartan svarar þeirri pillu líka að strandveiðar séu áhugamál. „Taktíkin er að skera pottinn svo við nögl að ekki sé hægt að lifa á strandveiðum og svo að úthrópa þær sem frístundaveiðar vegna þess að enginn getur haft þær sem aðalstarf,“ skrifar segir hann meðal annars.

Grein Kjartans má lesa hér.

Sjá einnig: Heiðrún heggur í strandveiðar

Meðfylgjandi mynd er frá mótmælum strandveiðimanna á Austurvelli nýliðinn laugardag.

Deila: