Heimsóttu HS Orku, Codland og Vísi
Um þessar mundir hafa þjóðarleiðtogar á Norðurlöndunum, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum verið að funda á Íslandi. Í ár gegnir Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Yfirskrift formennskuársins er „Gagnvegir góðir“, sem vísar til vináttu Norðurlandanna sem birtist í öflugu samstarfi en gagnvegir liggja líka út í heim þar sem Norðurlöndin kynna sig sameiginlega og leggja sitt af mörkum til alþjóðasamstarfs. Áherslumál Íslands á formennskuárinu eru þrjú: Ungt fólk, sjálfbær ferðamennska og málefni hafsins.
Það voru leiðtogar Grænlands, Álandseyja og Færeyja sem komu ásamt fylgdarliði í gær í heimsókn til Grindavíkur. Byrjað var á að heimsækja HS Orku í Svartsengi þar sem kynnt var starfsemi og sérstaða fyrirtækisins en Auðlindagarður HS Orku er sá eini sinnar tegundar í heiminum. Eftir það lá leiðin í Codland í Grindavík en þeir hafa nýlega opnað vinnslu sína í Grindavík en fyrirtækið vinnur að því að fullnýta afurðir þorsksins og að ekkert fari til spillis. Það var Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codland sem tók á móti hópnum og kynnti starfsemina. Því næst lá leiðin í Vísi hf þar sem Erla Ósk Pétursdóttir, mannauðsstjóri kynnti sjálfbærni í sjávarútvegi og það starf sem unnið er hjá Vísi. Ferðin var skipulögð af utanríkisráðuneytinu og Alþingi.
Snæddur var hádegisverður á Bryggjunni í nýja salnum á 3ju hæð sem ber nafnið Netagerðin. Boðið var upp á humarsúpu í forrétt, fisk í aðalrétt og pönnukökur með sultu og rjóma í eftirrétt. Milli rétta kynnti Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi sjálfbæra ferðaþjónustu á svæðinu ásamt þeim aðgerðum sem ríkisvaldið hefur farið í til að tryggja sjálfbærni til framtíðar. Þá fékk hópurinn kynningu á starfsemi og hlutverki Reykjanes Jarðvangs.
Fannar Jónasson bæjarstjóri lýsti yfir ánægju með heimsóknina og sagði að Grindvíkingar væru afskaplega stoltir af þeirri framleiðslu sem færi fram í sveitarfélaginu og þeim fyrirtækjum sem þar störfuðu.