Heimsóttu HS Orku, Codland og Vísi

Deila:

Um þessar mundir hafa þjóðarleiðtogar á Norðurlöndunum, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum verið að funda á Íslandi. Í ár gegnir Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Yfirskrift formennskuársins er „Gagnvegir góðir“, sem vísar til vináttu Norðurlandanna sem birtist í öflugu samstarfi en gagnvegir liggja líka út í heim þar sem Norðurlöndin kynna sig sameiginlega og leggja sitt af mörkum til alþjóðasamstarfs. Áherslumál Íslands á formennskuárinu eru þrjú: Ungt fólk, sjálfbær ferðamennska og málefni hafsins.

Það voru leiðtogar Grænlands, Álandseyja og Færeyja sem komu ásamt fylgdarliði í gær í heimsókn til Grindavíkur. Byrjað var á að heimsækja HS Orku í Svartsengi þar sem kynnt var starfsemi og sérstaða fyrirtækisins en Auðlindagarður HS Orku er sá eini sinnar tegundar í heiminum. Eftir það lá leiðin í Codland í Grindavík en þeir hafa nýlega opnað vinnslu sína í Grindavík en fyrirtækið vinnur að því að fullnýta afurðir þorsksins og að ekkert fari til spillis. Það var Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codland sem tók á móti hópnum og kynnti starfsemina. Því næst lá leiðin í Vísi hf þar sem Erla Ósk Pétursdóttir, mannauðsstjóri kynnti sjálfbærni í sjávarútvegi og það starf sem unnið er hjá Vísi. Ferðin var skipulögð af utanríkisráðuneytinu og Alþingi.

Meðfylgjandi mynd var tekin af hópnum en þar eru m.a. þau Kim Keilsen er formaður landsstjórnarinnar í Grænlandi og Katrin Sjögren landsstjóri Álandseyja, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Stefán Skjaldarson, sendiherra og fararstjóri hópsins, Jóna Sólveig Elínardóttir fyrrverandi þingmaður og núverandi starfsmaður utanríkisráðuneytisins, Halla Gunnarsdóttir sérfræðingur í jafnréttismálum, Björg Torfadóttir stjórnarráðsfulltrúi í utanríkisráðuneytinu og Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis. Fyrir hönd Grindavíkurbæjar eru Fannar Jónasson, bæjarstjóri og Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfullrúi.

Snæddur var hádegisverður á Bryggjunni í nýja salnum á 3ju hæð sem ber nafnið Netagerðin. Boðið var upp á humarsúpu í forrétt, fisk í aðalrétt og pönnukökur með sultu og rjóma í eftirrétt. Milli rétta kynnti Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi sjálfbæra ferðaþjónustu á svæðinu ásamt þeim aðgerðum sem ríkisvaldið hefur farið í til að tryggja sjálfbærni til framtíðar. Þá fékk hópurinn kynningu á starfsemi og hlutverki Reykjanes Jarðvangs.

Fannar Jónasson bæjarstjóri lýsti yfir ánægju með heimsóknina og sagði að Grindvíkingar væru afskaplega stoltir af þeirri framleiðslu sem færi fram í sveitarfélaginu og þeim fyrirtækjum sem þar störfuðu.

 

Deila: