Lóðum lyft í gamla frystihúsinu

Deila:

Í byrjun september sl. tók Lyftingafélag Austurlands í notkun húsnæði sem Síldarvinnslan lét félaginu í té í gamla frystihúsinu í Neskaupstað. Félagið var stofnað árið 2016 og eru félagsmenn frá Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði og Egilsstöðum. Starfsemi félagsins hófst í fyrstu í gamla frystihúsinu á Eskifirði en nú fer starfsemi þess fram í Neskaupstað auk þess sem félagar hafa aðgang að CrossFit- stöðvum á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Úr prentsmiðju í fiskvinnslu!

Stofnandi félagsins er Sigrún Harpa Bjarnadóttir, lögfræðingur á Eskifirði, en hún hefur brennandi áhuga á olympískum lyftingum og þeirri hugmyndafræði sem CrossFit byggir á. Í fyrstu æfðu fáir á vegum félagsins og búnaðurinn sem notast var við var takmarkaður, en að undanförnu hefur félagið vaxið undurhratt. Starfsemi lyftingafélags á ekki vel heima í hefðbundnum líkamsræktarstöðvum því þar eru yfirleitt veruleg þrengsli og þess vegna þarf að finna starfseminni annað húsnæði. Í Neskaupstað hóf félagið þó starfsemi í líkamsræktarstöð bæjarins en fljótlega kom að því að finna þurfti stærra og hentugra húsnæði. Félagið fékk afnot af gamla prentsmiðjuhúsnæðinu og það var framfaraskref, en með auknum iðkendafjölda sprengdi það einnig það húsnæði utan af sér. Þá voru góð ráð dýr og leitað var til Síldarvinnslunnar og spurst fyrir um hvort möguleiki væri að fá inni fyrir starfsemina í gamla frystihúsinu. Síldarvinnslan tók erindinu vel og afhenti félaginu afnotarétt á húsnæði á annarri hæð þar sem meðal annars kaffistofa starfsfólks frystihússins var á sínum tíma. Það var mikil vinna að gera húsnæðið í gamla frystihúsinu hæft til notkunar fyrir Lyftingafélagið og þeirri vinnu er ekki lokið enn. Húsnæðið var hins vegar tekið í notkun í septembermánuði og þykir henta afskaplega vel fyrir starfsemina. Aðstöðuna í gamla frystihúsinu nefna félagsmenn Nesheima.

60 manns sem mæta í tíma

Til að fræðast nánar um starfsemi Lyftingafélagsins var Sylvía Dröfn Sveinsdóttir, stjórnarmaður í félaginu, tekin tali. Sylvía segir að uppgangur félagsins sé hreint ótrúlegur og sérstaklega sé starfsemin blómleg í Neskaupstað. „Félagið hefur blásið út. Í byrjun sl. sumars voru félagsmenn um 50 talsins en nú eru þeir hvorki fleiri né færri en 112 og meirihluti félagsmanna er hér í Neskaupstað. Gamla prentsmiðjuhúsið, sem við æfðum áður í, var orðið allt of lítið. Við gátum flest verið um átta að æfa samtímis í prentsmiðjuhúsinu en hér í gamla frystihúsinu getum við verið fimmtán. Hjá félaginu eru tíu skipulagðir tímar á viku hér í gamla frystihúsinu þar sem kennsla fer fram, en félagið býr svo vel að hafa fjóra þjálfara með réttindi sem starfa í Neskaupstað. Það eru um 60 manns sem mæta í þessa tíma. Að auki geta félagsmenn notað aðstöðuna eftir hentugleikum. Flesta daga eru einhverjir byrjaðir að lyfta hér klukkan fimm á morgnana og sumir eru að koma eftir klukkan tíu á kvöldin. Fyrir utan Norðfirðinga kemur fólk hér frá Eskifirði og Reyðarfirði til að nýta aðstöðuna. Það er í reyndinni ótrúlegt hvað starfsemin hefur vaxið á ekki lengri tíma,“ segir Sylvía.

Í þakkarskuld við marga

Fram kemur í máli Sylvíu að félagið standi í þakkarskuld við marga. Ýmsir félagsmenn hafa lagt mikið af mörkum til að gera húsnæðið hæft til notkunar og þá tóku starfsmenn Alcoa einnig þátt í því, en þeir sinna ýmsum þörfum samfélagsverkefnum. Enginn hefur þó stutt félagið betur en Síldarvinnslan. Auk þess að útvega húsnæðið í gamla frystihúsinu hefur Síldarvinnslan veitt styrki til búnaðarkaupa og þá komu starfsmenn Síldarvinnslunnar að ýmsum verkefnum þegar unnið var í húsnæðinu. „Við stöndum í mikilli þakkarskuld við alla sem hafa aðstoðað okkur og það hefði ekki verið unnt að halda úti þessari starfsemi ef við nytum ekki svona mikils skilnings í samfélaginu,“ segir Sylvía.

Sylvía telur að hægt og bítandi sé starfsemi Lyftingafélagsins að öðlast viðurkenningu í samfélaginu hér eystra, en það taki ávallt einhvern tíma fyrir nýja íþróttagrein að öðlast slíka viðurkenningu. Sem dæmi má nefna að nú nýverið fór verslunin Fjarðasport í Neskaupstað að bjóða upp á vörur sem henta lyftingafólki.

 

Til stendur að halda vígsluhátíð í húsnæði félagsins í gamla frystihúsinu þegar framkvæmdum þar verður endanlega lokið og þá geta allir komið og kynnt sér aðstöðuna og blómlegt starf Lyftingafélags Austurlands.

 

Deila: