Grunur um ólöglegar veiðar við Senegal

Deila:

Senegalski sjóherinn færði aðfaranótt mánudags verksmiðjutogarann Navigator til hafnar í höfuðborginni Dakar vegna gruns um að togarinn hefði verið á veiðum undan ströndum landsins án leyfis. Þetta staðfestir sjóherinn í samtali við fréttastofu RUV. Skipstjóri skipsins er íslenskur, samkvæmt upplýsingum fréttastofu en stærstur hluti áhafnarinnar er frá Máritaníu.

„Ekki liggur fyrir hvenær skipinu verður leyft að snúa aftur til veiða.   Ekki náðist í skipstjórann við vinnslu fréttarinnar.  Samkvæmt Marine Traffic er skipið enn í Dakar og hefur verið síðan í gær,“ aegir í frétt ruv.is en þar segir ennfremur:

„Skipstjórinn hefur ekki verið handtekinn en lagt var hald á vegabréf hans, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Útgerð skipsins má eiga von á sekt vegna málsins en ekki liggur fyrir hversu há hún verður.

Skipið er gert út af útgerðarfélaginu Úthafsskipum í Hafnarfirði en eigandi hennar er Haraldur Jónsson sem hefur oftast verið kenndur við Sjólaskip.  Framkvæmdastjóri hjá Úthafsskipum vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Í umfjöllun Bændablaðsins um miðjan mánuðinn kom fram að Úthafsskip gera út þrjú skip við Vestur-Afríku. Auk Navigator eru það verskmiðjutogararnir Victoria og Gloria.

Navigator er annar togarinn með tengsl við Ísland sem er færður til hafnar í Afríku vegna gruns um ólöglegar veiðar. Nýverið var togarinn Heineste kyrrsetur í Namibíu en hann er í eigu félags í Namibíu sem Samherji á hlut í. Íslenskur skipstjóri togarans var sakaður um að hafa siglt honum inn á lokað svæði.“

 

Deila: