Kolmunnaskipin komin heim

142
Deila:

Kolmunnaskipin Beitir NK og Börkur NK komu heim í fyrr í vikunni eftir að hafa verið við Færeyjar í tvær vikur. Beitir var með 280 tonn og Börkur með 350. Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, segir að lítið hafi verið hægt að veiða vegna veðurs og reyndar hafi lítið veiðst þegar gaf.

„Það var óveður nánast allan tímann og skipin hafa mest legið í höfn eða í vari. Við höfum legið mest í Þórshöfn og Runavík en lönduðum einu sinni í Fuglafirði. Fiskurinn er að ganga suður eftir og við sáum ekki mikinn fisk þann stutta tíma sem við gátum verið að. Nú eru held ég öll íslensku kolmunnaskipin komin heim nema Hoffellið. Menn hafa gefist upp á þessu í bili. Ég á varla von á einhverjum góðum loðnufréttum en ég á von á að haldið verði á kolmunnaveiðar vestur af Írlandi þegar komið verður vel fram í febrúar,“ segir Sturla í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Á myndinni er Beitir í ólgusjó. Ljósmynd Helgi Freyr Ólason

Deila: