Steypireyður í Suðurhópi

638
Deila:

Eitt af stærri listaverkum á landinu er nú að líta dagsins ljós í Grindavík. Það er mynd af stærsta dýri jarðarinnar, steypireyði í allri sinni dýrð. Ungmenni í bænum eru að mála af henni mynd í fullri stærð á götunni í  Suðuhópi og fer ansi mikið af málningu í hana.

Steypireyður er stærsta dýrategund jarðar og getur orðið um 30 metra löng og vegið 190 tonn. Hún er fremur grannvaxin og straumlínulaga, með hlutfallslega smá bægsli en höfuðstór. Ofan á höfðinu er upphækkun um blástursholur, trjónan er ávöl og hlutfallslega breiðari en á öðrum skíðishvölum. Liturinn er flikróttur, að grunni til blágrár nema neðanverð bægslin, þau eru hvít. Einstaklingar eru misdökkir og má greina þá í sundur á litamynstri.

Steypireyður er útbreidd um öll úthafssvæði nema umhverfis Norðurheimskautið og í Miðjarðarhafi. Hún er farhvalur og heldur sig nálægt ísröndinni á sumrin, bæði á Suður- og Norðurhveli, en dvelur í hlýrri sjó að vetrum. Steypireyður sést við Íslandsstrendur að sumarlagi, yfirleitt frá maí til október. Oftast sjást dýrin vestur af landinu en einnig út af Suðvestur- og Norðausturlandi.

Fæða steypireyðar er svo til eingöngu sviflæg krabbadýr, aðallega ljósáta. Fengitími er á veturna og er algengast að kýrnar beri um hávetur. Meðgangan er talin vera 10-11 mánuðir og er kálfurinn um 7 metra langur og 3 tonn að þyngd við burð. Mjólkin er mjög næringarrík en kálfar eru á spena í sjö mánuði. Steypireyður verður kynþroska um 10 ára og talið er að kýrnar beri að jafnaði annað eða þriðja hvert ár.

 

 

Deila: