Grænland og Færeyjar semja um fiskveiðar
Færeyjar og Grænland hafa gert tvíhliða samning um fiskveiðar á næsta ári. Á síðustu árum hefur samvinna þjóðanna á þessu sviði farið vaxandi og heldur það ferli nú áfram. Góðar horfur eru fyrir vöxt og viðgang helstu fiskistofnanna sem við söguna koma, en það eru þorskur við Suður- og Austur-Grænland og norsk-íslensk síld.
Fyrir vikið var samið um auknar þorskveiðiheimildir Færeyinga við Grænland og Grænlendingar fá meiri síldarkvóta innan lögsögu Færeyja. Þannig hækkar þorskkvóti Færeyinga við Grænland um 1.000 tonn, en heimildir Grænlendinga til veiða á síld aukast um 3.300 tonn og kolmunnakvótinn hækkar um 1.200 tonn. Þá verður færeyskum skipum heimilt að taka þátt í tilraunaveiði á þorski og öðrum sjávardýrum norður með Austur-Grænlandi.
Nú verður því þorskkvóti Færeyinga við Grænland 2.500 tonn. Keilukvótinn verður óbreyttur í 475 tonnum og loks verður þeim heimilt að veiða 325 tonn á grálúðu við Grænland. Þá verður óbreytt heimild til tilraunaveiða á krabba um 500 tonn.
Eftir samninginn nú mega grænlensk skip veiða 6.500 tonn af síld innan lögsögu Færeyja og 14.700 tonn af kolmunna. Enn fremur fá Grænlendingar að taka þann kolmunnakvóta sem NEAFC þeim. 5.032 tonn innan lögsögu Færeyja.
Samningaviðræðurnar fóru fram á fjarfundi.