Útgerðir innan ESB fá milljarðabætur vegna Brexit

163
Deila:

Útganga Breta úr Evrópusambandinu hefur mikil áhrif á afkomu útgerðar og sjómanna í mörgum löndum ESB, þegar áhrif útgöngusamningsins verða að öllu leyti komin í ljós. Talið er að veiðiheimildir ESB innan lögsögu Breta lækki um 25%. ESB hefur ákveðið að verja 5 milljörðum evra í bætur til útgerða innan sambandsins sem missa þar spón úr aski sínum. Þessi upphæð svarar til 780 milljarða íslenskra króna.

Sem dæmi um skertar veiðiheimildir má nefna að Danir hafa tekið um 40% af ársafla sínum innan bresku lögsögunnar og 30% af tekjum dönsku útgerðarinnar hafa komið úr veiði innan lögsögu Breta.

Sjávarútvegsráðherra Danmerkur, Rasmus Prehn, segir reyndar að það sé léttir að skerðingin sé ekki meiri en 25%, því upphaflega hafi það verið ætlun Breta að hún næmi 80%. Dönsk stjórnvöld íhuga nú með hvaða hætti þau geti aðstoðað útgerðir sem háðar eru veiðum við Bretland og frönsk stjórnvöld hafa þegar ákveðið að bæta útgerðum í landinu upp skaðann vegna minni veiðiheimilda.

 

Deila: