Sigurður VE með mestan kvóta í norsk-íslensku síldinni

235
Deila:

Sigurður VE og Björgvin EA eru með mesta úthlutun í norsk-íslenskri síld á þessu ári. Sigurði er heimilt að veiða 11.689 tonn og heimildir skráðar á Björgvin eru 11.617 tonn. Hann mun þó ekki halda til síldveiða í ár, enda ísfisktogari. Heilmildir hans bíða væntanlega þess að nýr Vilhelm Þorsteinsson taki þær. Í fyrra tók Margret EA heimildir Samherja í norsk-íslensku síldinni, en það skip hefur verið selt til Færeyja.

Næstu skip á eftir þessum tveimur eru Beitir NK með 10.360 og Heimaey VE með 10.056 tonn. Aflahæstu skip í fyrra voru Margret EA með 9.611 tonn. Beitir NK var með 9.519 tonn, Heimaey VE með 9.253 tonn og Sigurður VE með 9.197 tonn.

Heildarkvóti nú er 111.469 tonn. Frá því dragast 4.033 tonn, sem tekin voru umfram heimildir í fyrra. Því koma til úthlutunar 107.436 tonn. Í fyrra var kvótinn 86.407 tonn, en við það bættust sérstakar úthlutanir, samtals 4.836 tonn. Leyfilegur heildarafli þá var þá tæplega 92.200 tonn, en aflinn varð 96.212 tonn. Mismunurinn hefur verið tekinn af úthlutun þessa árs í samræmi við lokastöðu skipanna.

Deila: