Smit stöðvar Fjölni

251
Deila:

Níu skip­verjar á línu­bátnum Fjölni GK sitja nú fastir um borð við bryggju í Grinda­vík eftir að smit kom upp hjá á­hafnar­með­lim. Skipið átti að fara úr höfn í kvöld en var kyrr­sett eftir að skip­verji þess fékk niður­stöður úr seinni sýna­töku sinni, ný­kominn til landsins frá út­löndum, og reyndist þá já­kvæður. Þeir sem voru með honum um borð sitja þar fastir. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í gærkvöldi.

Þetta stað­festir skip­stjóri Fjölnis, Aðal­steinn R. Frið­þjófs­son, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir þó að þeir telji að um gamalt smit sé að ræða og niður­stöður úr mót­efna­mælingu skip­verjans komi í ljós í fyrra­málið. Þá verði vonandi hægt að fara af stað í ferðina.

Virti ekki sóttkví

„Hann var að koma frá út­löndum og fékk nei­kvætt í fyrri skimun. Síðan fær hann niður­stöður úr seinni skimun bara nánast á sama augna­bliki og hann var að mæta um borð,“ segir Aðal­steinn. „En hann er ekki með nein ein­kenni eða neitt.“

Því er ljóst að skip­verjinn hefur ekki virt sótt­kví sem hann átti að vera í á meðan hann beið eftir niður­stöðum seinni sýna­tökunnar. Aðal­steinn segir að hann hafi komist í snertingu við þrjá aðra skip­verja áður en hann fékk skilaboð um að hann væri smitaður. Þeir eru nú í ein­angrun í skipinu en sex aðrir með­limir á­hafnarinnar voru einnig mættir og sitja þeir í sótt­kví um borð.

Hluti á­hafnarinnar var hins vegar ekki mættur þegar smitið kom upp og sjálfur er Aðal­steinn í fríi. Hann vonast til að grunur þeirra um að um gamalt smit sé að ræða reynist réttur og að báturinn geti siglt úr höfn í fyrra­málið. „En þetta er leiðin­legt. Svona getur farið þegar menn fylgja ekki reglunum.“

Skipið Fjölnir GK er í eigu útgerðarinnar Vísis hf.

Þegar Frétta­blaðið ræddi við Rögn­vald Ólafs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjón al­manna­varna, hafði hann ekki heyrt af málinu.
Á myndinni er Fjölnir við bryggju í Grindavík í gærkvöldi. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: