Smit stöðvar Fjölni
Níu skipverjar á línubátnum Fjölni GK sitja nú fastir um borð við bryggju í Grindavík eftir að smit kom upp hjá áhafnarmeðlim. Skipið átti að fara úr höfn í kvöld en var kyrrsett eftir að skipverji þess fékk niðurstöður úr seinni sýnatöku sinni, nýkominn til landsins frá útlöndum, og reyndist þá jákvæður. Þeir sem voru með honum um borð sitja þar fastir. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í gærkvöldi.
Þetta staðfestir skipstjóri Fjölnis, Aðalsteinn R. Friðþjófsson, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir þó að þeir telji að um gamalt smit sé að ræða og niðurstöður úr mótefnamælingu skipverjans komi í ljós í fyrramálið. Þá verði vonandi hægt að fara af stað í ferðina.
Virti ekki sóttkví
„Hann var að koma frá útlöndum og fékk neikvætt í fyrri skimun. Síðan fær hann niðurstöður úr seinni skimun bara nánast á sama augnabliki og hann var að mæta um borð,“ segir Aðalsteinn. „En hann er ekki með nein einkenni eða neitt.“
Því er ljóst að skipverjinn hefur ekki virt sóttkví sem hann átti að vera í á meðan hann beið eftir niðurstöðum seinni sýnatökunnar. Aðalsteinn segir að hann hafi komist í snertingu við þrjá aðra skipverja áður en hann fékk skilaboð um að hann væri smitaður. Þeir eru nú í einangrun í skipinu en sex aðrir meðlimir áhafnarinnar voru einnig mættir og sitja þeir í sóttkví um borð.
Hluti áhafnarinnar var hins vegar ekki mættur þegar smitið kom upp og sjálfur er Aðalsteinn í fríi. Hann vonast til að grunur þeirra um að um gamalt smit sé að ræða reynist réttur og að báturinn geti siglt úr höfn í fyrramálið. „En þetta er leiðinlegt. Svona getur farið þegar menn fylgja ekki reglunum.“
Skipið Fjölnir GK er í eigu útgerðarinnar Vísis hf.
Þegar Fréttablaðið ræddi við Rögnvald Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjón almannavarna, hafði hann ekki heyrt af málinu.
Á myndinni er Fjölnir við bryggju í Grindavík í gærkvöldi. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.