„Ríkisútvarpið ritskoðar gagnrýni“

177
Deila:

„Ríkisútvarpið hefur ritskoðað gagnrýni á eigin vinnubrögð með því að krefjast þess að Facebook taki niður nýtt myndband, sem Samherji lét framleiða, þar sem fjallað er um fréttamat og vinnubrögð fréttastofu RÚV. Ríkisútvarpið hefur ekki þolað þá hófstilltu gagnrýni sem kom fram í myndbandinu og í skjóli framsækinnar túlkunar á höfundarrétti krafðist stofnunin þess að Facebook tæki myndbandið niður. Varð Facebook við kröfunni í gærkvöldi.“

Svo segir í færslu á heimasíðu Samherja í dag. Þar segir ennfremur:

„Í myndbandinu var fjallað um langvarandi og samfelldan fréttaflutning Ríkisútvarpsins þar sem Samherji var sakaður um peningaþvætti í samskiptum sínum við norska bankann DNB. Norski ríkissaksóknarinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í þeim ásökunum. Ríkisútvarpið birti tólf sekúndna frétt um þá niðurstöðu en þagði að öðru leyti um málið. Myndbandið var gert til þess að varpa ljósi á þessi fráleitu vinnubrögð.

Krafa Ríkisútvarpsins um að taka myndbandið niður var sett fram á grundvelli langsóttrar túlkunar um brot á höfundarrétti en Samherji hefur ætíð greitt fyrir notkun á öllu efni og erindi um slíkt ávallt verið hreint formsatriði.

Þessi mynd er birt með færslu Samherja. Á henni eru Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður.

Sérstaka athygli vekur að sá sem setti kröfuna fram fyrir hönd Ríkisútvarpsins er Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri á fréttastofu RÚV sem nú hefur gerst hagmunagæslumaður höfundarréttar á stofnuninni. Áhugi fréttastofunnar á þessu viðfangsefni er aðeins skiljanlegur í því ljósi að efnið hefur raskað starfsró fréttamanna sem hafa talið brýnt að beita öllum tiltækum ráðum til að koma að ritskoðun gegn heiðarlegri gagnrýni á störf þeirra.

Samherji mun nú gera kröfu um að Ríkisútvarpið upplýsi um þær reglur sem farið er að við afnot af efni stofnunarinnar. Er þar gætt jafnræðis eða tekur Ríkisútvarpið sér vald til að hafna beiðnum aðila sem þeim er í nöp við?“

Þetta er myndbandið sem RÚV vill ekki að almenningur sjái. Það er ennþá í birtingu á YouTube. https://youtu.be/ylBOcADgfqg

 

 

Deila: