Fyrsta nótaviðgerðin á nýju veiðarfæraverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað

199
Deila:

Norska loðnuskipið Rav kom til Norðfjarðar mánudagsmorguninn í síðustu viku með illa rifna loðnunót.  Nótin ókláraðist við útköstun úr nótakassanum og rifnaði það mikið að heilu bálkarnir hurfu burt úr nótarammanum. Skipstjórinn og áhöfnin gerðu sér strax grein fyrir því að nótaviðgerðin væri stórt og mikið verkefni og það myndi taka marga daga að gera nótina veiðihæfa að nýju.

Nótin var strax tekin inn á verkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað um leið og skipið lagðist að bryggjunni fyrir framan nýja veiðarfæraverkstæðið. Það varð strax ljóst að þetta yrði  mikil vinna að koma loðnunótinni saman aftur og var því fenginn liðsauki frá Hampiðjunni í Reykjavík og einnig bættist við starfsmaður úr bænum í hópinn.

„Þetta var í fyrsta skipti sem við tökum hringnót inn á verkstæðið til viðgerðar,“ segir Jón Einar rekstrarstjóri Hampiðjunnar í Neskaupstað í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar.  Það var ánægjulegt að sjá að öll tæki og aðstaða virkaði mjög vel.  Það er ljóst að verk eins og þetta hefði tekið mun lengri tíma á gamla verkstæðinu segir hann ennfremur.”

Á miðvikudagskvöld ákvað skipstjóri og útgerð skipsins að láta breyta og lagfæra nótakassann á skipinu. Það var brugðist hratt við þessu verkefni og morguninn eftir mættu málmtæknimenn frá Vélaverkstæði G. Skúlasonar hér á staðnum, sem unnu  af miklu kappi við breytingarnar um borð þar  til skipið hélt til veiða á ný.

Unnið var að miklu kappi við viðgerð á nótinni langt fram á kvöld alla daga vikunnar, eins og alltaf er gert er þegar mikið liggur við og kláraðist viðgerðin á föstudagskvöldinu. Loðnunótin var strax hífð beint um borð og var komin aftur í nótakassann fyrir miðnætti og skipið hélt strax aftur á loðnumiðin undan Austfjörðum.

„Skipstjórinn og áhöfnin voru mjög ánægðir með þjónustu Hampiðjunnar, þar sem veiðarfæratæknar hennar unnu langa vinnudaga við nótaviðgerðina. Einnig voru þeir ánægðir með að starfsmenn frá vélaverkstæðinu skyldu mæta á staðinn með stuttum sem engum fyrirvara. Við óskuðum þeim góðs gengis við veiðarnar og vonum að þeir nái að veiða loðnukvóta skipsins sem allra fyrst og fái fyrir hann viðunandi  gott verð,“ segir Jón Einar.

 

Deila: