Troll frá Ísfelli reynast vel í Færeyjum
Veiðarfærafyrirtækið Ísfell hefur oft áður tekið þátt í Íslensku sjávarútvegssýningunni og heldur nú áfram að auka við þjónustu sína, bæði með vörum frá erlendum framleiðendum og vörum framleiddum í netaverkstæði fyrirtækisins í Hafnarfirði.
Guðbjartur Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ísfells, segir í samtali á heimasíðu sýningarinnar segir að Arctic 101 togvörpurnar hafi reynst vel í færeyska flotanum.
„Á síðasta ári útveguðum við færeyskum togurum átta af þeim og samanborið við hefðbundnu Bacalao trollin þá er minna um að smáfiskur festist í möskvunum. Þetta sparar áhöfninni töluverðan tíma, og bætir gæði aflans,“ sagði hann.
Ísfell selur mikið af togvírum og hefur fjárfest í vindukerfi sem gerir mönnum kleift að vefja nýja víra upp á vindutromluna undir stöðugu álagi.
„Þetta hefur í för með sér að betur er farið með vírana og það sparast raunverulegur tími fyrir áhöfnina þar sem engin þörf er fyrir að losa vírana af tromlunni úti á hafi og vinda upp á hana aftur, eins og annars hefði þurft,“ segir hann.
„Þessi vinna getur tekið langan tíma, sérstaklega þegar veður er vont, og þá er ekki hægt að veiða neitt fyrr en því er lokið. Þannig að ef við getum komið vírunum rétt upp á tromluna undir álagi meðan verið er að landa og setja eldsneyti á skipið, þá geta þeir farið strax að vinna.“
Vindukerfið er frá spænska vinduframleiðandanum Ibersica, og þessi uppsetning er höfð á 20 feta gámagrunni, þannig að auðvelt er að hlaða henni á flutningabifreið og flytja milli staða eftir þörfum. Hún er dísilknúin með 45 kW vindumótor svo hægt er að setja hana upp í höfnum og á bryggjum þar sem ekki er greiður aðgangur að orku.
Hægt er að nota fjarstýringu og hafa þá betri yfirsýn og stjórna betur bæði hraða og átaki, en aðvörun fer af stað ef farið er yfir ákveðin mörk.
Ísfell er með á sínum snærum ýmsa framleiðendur erlendis, þar á meðal Morgère, Rock, Fishering Service og Bridon-Bekaert, en smábátaveiðar eru líka með í myndinni og nú er búið að bæta handfærarúllum frá Westmarine við listann. Þær hafa átt góðu gengi að fagna í Noregi meðal strandveiðimanna og verður partur af tækjabúnaðinum sem fyrirtækið sýnir í bás sínum á Íslensku sjávarútvegssýningunni í september.
Þessar litlu handfæravindur verða fáanlegar bæði rafknúnar og vökvaknúnar, og þær eru gerðar þannig að línan er dregin á rennu sem nær út yfir borðstokkinn og flytja hvern og einn fisk inn fyrir.
„Þetta einfaldar vinnuna fyrir sjómennina og minnkar auk þess líkurnar á slysum,“ segir Guðbjartur Þórarinsson. Hann bætir því við að Ísfell geti boðið upp á sérsmíðaðar Westmarine dráttarvindur, í samstarfi með Stálorku, í heildarpakka fyrir hvern bát.