Ufsinn vandfundinn

188
Deila:

,,Það eru allir að leita að ufsa en hann er vandfundinn. Hins vegar er nóg af öllum öðrum helstu tegundum, s.s. gullkarfa, þorski og ýsu, en ufsinn sést varla. Þetta hefur gerst áður enda þykir ufsinn brögðóttur með afbrigðum.”
Þetta sagði Jón Frímann Eiríksson, sem er skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE í yfirstandandi veiðiferð. Jón Frímann segist í samtali við heimasíðu Brims hafa haldið sig á svokölluðum heimamiðum í veiðiferðinni.
,,Við fórum austast á Selvogstána og svo norður undir Snæfellsjökul í leit að ufsa. Árangur var lítill. Ég var að tala við skipstjóra, sem er á Vestfjarðamiðum, en það er sama sagan þar. Ufsinn finnst ekki. Svona er þetta en það gæti þess vegna brostið á með bullandi ufsaveiði strax á morgun.”
Jón Frímann segir að veðurspáin sé óhagstæð fyrir helgina. Svo slæm reyndar að það komi til greina að leita til hafnar strax á morgun. Venjulega kemur skipið ekki inn fyrr en árla á mánudagsmorgnum. Er rætt var við Jón Frímann var heildaraflinn í veiðiferðinni kominn í um 120 tonn.
Jón Frímann er venjulega stýrimaður á Akurey AK og hann segir Viðey vera nákvæmlega eins og Akurey.
,,Búnaðurinn skiptir vissulega máli. Skipin eiga þó meira sammerkt og það er hve vel þau eru mönnuð. Þetta eru hörkuduglegir karlar sem vita hvað þeir eru að gera. Eftir að hafa farið túr á Örfirisey RE í fyrra og nú á Viðey get ég fullyrt að það eru mjög góðir sjómenn á skipum Brims,” segir Jón Frímann Eiríksson.

Deila: