Nýtt stálgrindarhús rís hjá Loðnuvinnslunni

243
Deila:

Austan við fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar er risið afar reisulegt stálgrindarhús. Hús þetta kemur til með að hafa tvö hlutverk, annars vegar mjölgeymsla þegar setja þarf mjöl í sekki og hins vegar aðstaða fyrir karaþvottavél.

Húsið er 720 fermetrar og eru 10 metrar upp í mæni, með steyptum grunni og steyptum eins metra háum vegg þar sem stálgrindin er fest ofan á.

Sigurður Ingi Ólafsson stálhönnuður hannaði stálgrindina og flutti inn frá Póllandi. Ekki er þetta fyrsta hús Sigurðar hér á Fáskrúðsfirði því hann hannaði einnig frystigeymsluna sem og bygginguna sem hýsir svo kallað hreinsivirki, en þar fer hrognavinnsla fram.

Sigurður hefur hannað byggingar og brýr úr stálgrindum bæði hér heima og erlendis og nægir þar að nefna fallegar göngubrýr í Elliðavogi í Reykjavík.

Elís Eiríksson byggingarverkfræðingur var hönnunarstjóri hússins og hafa Elís og Sigurður unnið saman að allmörgum byggingum.  Í spjalli við þá félagana á heimasíðu Loðnuvinnslunnar, kom fram að aðalvinnan væri fólgin í því að hanna stálgrindina og allar festingar þannig að allt félli saman líkt og flís við rass og þegar borið var á þá hól fyrir vel unnin störf svaraði Sigurður brosandi: „Við erum snillingar.“

Magnús Þórarinsson og Baldur Bragason smiðir höfðu svo veg og vanda af því að reisa húsið á grunninn sem þeir byggðu s.l haust. „4.janúar byrjuðum við svo að reisa húsið og það var búið að loka því í fyrstu viku febrúarmánaðar,” sagði Magnús og staðfesti að byggingin væri svo vel hönnuð  að leikur einn hefði verið að koma henni upp því allt passaði og engin vandamál komu upp. Starfsmenn fiskmjölsverksmiðjunnar lögðu líka sitt lóð á vogarskálarnar með því að vinna að uppsetningu hússins undir handleiðslu smiðanna Magnúsar og Baldurs. Með samhentu átaki er hægt að koma miklu til leiðar.

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar og sagði hann að húsið væri kærkomið því að framleiðslutími á mjöli væri aðallega á veturna og vorin en neyslutími – sölutími, væri á sumrin og haustin þannig að gott og öruggt húsnæði fyrir lagerinn væri nauðsynlegt þar til varan væri afhent kaupendum.

Loðnuvinnslan vinnur  sífellt að því að  bæta aðstöðu, endurnýja tæki og tól og auka tækni í allri starfsemi og er þessi bygging einn hlekkur í þeirri mikilvægu keðju.

 

 

Deila: