Fóðurtilraunir Matís hafa víða áhrif

0
Deila:

Í tilraunaeldisstöð Matís eru stundaðar margskonar fóðurtilraunir þar sem meðal annars er verið að prófa nýja próteingjafa eða íblöndunarefni sem hafa jákvæð áhrif á vöxt og gæði. Eru þessar tilraunir annað hvort unnar sem þjónusta við fóðurframleiðendur og fiskeldisfyrirtæki, eða sem hluti af rannsóknarverkefnum sem fjármögnuð eru af sjóðum.

Margir af stærstu fóðurframleiðindum í heimi eru meðal viðskiptavina Matís á þessu sviði, enda tiltölulega fáir aðilar í heiminum sem geta boðið upp á vaxtar- og meltanleika tilraunir, mælingar á áhrifum fóðurs á efna og eðliseiginleika fisksins, og skynmat. Einn af viðskiptavinum Matís á þessu sviði er Austurríska stórfyrirtækið Agrana sem framleiðir breiða línu af matvælum og fóðri. Meðal þeirra afurða sem þeir standa í þróun með um þessar mundir er Betaine sem unnið er mestmegnis úr sykurrófum og hefur að þeirra sögn jákvæð áhrif á vöxt og gæði dýra þ.m.t. í fiskeldi. Agrana hefur nú fengið einkaleyfi á virka efninu ActiBeet® og lét í vetur Matís um að gera tilraunir með efnið í fóður fyrir hvítleggjarækjur (hlýsjávar rækjur). Niðurstöður tilraunarinnar voru jákvæðar og nú stendur Agrana í því að greina frá niðurstöðunum meðal fóður- og fiskeldisframleiðenda um allan heim. Sýnir þetta vel hvernig rannsóknir Matís hafa áhrif víðsvegar um heim og stuðla að verðmætaaukningu fyrir samstarfsaðila, og bættu fæðuöryggi, matvælaöryggi og lýðheilsu fyrir samfélagið í heild.

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Agrana auk þess sem hægt er að skrá sig á netkynningu sem fram fer hjá Agrana 19 maí.

 

Deila: