„Silfurstjarnan er burðarás atvinnulífsins í Öxarfirði“

Deila:

Silfurstjarnan – landeldisstöð Samherja fiskeldis í Öxarfirði – gegnir mikilvægu hlutverki í atvinnulífi svæðisins, enda stærsti vinnuveitandinn fyrir utan sjálft sveitarfélagið. Olga Gísladóttir sem stýrir vinnsluhúsi Silfurstjörnunnar segir að stækkunin styrki Öxarfjörðinn enn frekar í sessi sem matvælahérað. Undir það tekur Thomas Helmig eldisstjóri í samtali á heimasíðu Samherja.

Kostnaðurinn tveir milljarðar króna

Verklegar framkvæmdir við stækkun Silfurstjörnunnar hófust í lok janúar, stöðin verður stækkuð um nærri helming og verður framleiðslan um þrjú þúsund tonn af laxi á ári. Kostnaðurinn er hátt í tveir milljarðar króna og koma ýmis verktakafyrirtæki á svæðinu að verkefninu.

Ekki bara stækkun, einnig skógrækt

Byggð verða fimm ný ker sem verða um helmingi stærri að umfangi en stærstu kerin sem fyrir eru. Auka þarf sjótöku, byggja hreinsimannvirki, stoðkerfi og koma fyrir ýmsum tækjabúnaði. Samherji fiskeldi hefur keypt lóðina þar sem núverandi starfsemi fer fram og einnig jörðina Akursel, sem er vestan megin við stöðina. Þar verður, auk sjótöku, nýttur áburður frá starfseminni til landgræðslu og síðar skógræktar.

Eflir Öxarfjörð sem matvælahérað

Olga Gísladóttir sem stýrir vinnsluhúsi Silfurstjörnunnar segist full tilhlökkunar.

Olga Gísladóttir og Arnar Freyr Jónsson í vinnsluhúsi Silfurstjörnunnar

„Já ég er það, enda erum við að tala um umfangsmiklar framkvæmdir sem hafa verið í undirbúningi í töluverðan tíma. Hérna starfa hátt í þrjátíu manns og með stækkun stöðvarinnar aukast umsvifin og störfum fjölgar. Atvinnulífið hérna byggir á matvælaframleiðslu, enda aðstæður á margan hátt hagstæðar. Strjálbýlið á Íslandi hefur átt í vök að verjast, fólki fækkar víða og það á við um Öxarfjörðinn. Þessi neikvæða þróun hefur margvíslegar afleiðingar, nemendum fækkar í skólanum svo dæmi sé tekið. Þessi uppbygging og fjölgun starfa í kjölfarið er því góð vítamínsprauta fyrir okkur, styrkir svæðið og eykur trú fólks á svæðinu. Silfurstarnan er með öðrum orðum burðarás í atvinnulífinu og þar með samfélagsins,“ segir Olga Gísladóttir.

Öxarfjörður hentugur staður

Í sumar verður mikið umleikis hjá Silfurstjörnunni og verktakar í Norðurþingi sjá um stóra verkþætti. Thomas Helmig eldisstjóri segir að þekking heimafólks á fiskeldi sé mikil og stækkunin sé á margan hátt traustsyfirlýsing í garð starfsfólksins og héraðsins.

Thomas Helmig eldisstjóri

„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og við erum að taka stór spor til nútíma- og sjálfvirknivæðingar. Þetta verkefni er vel undirbúið að mínu viti og vissulega var kominn tími á endurnýjun enda stöðin komin um þriggja áratuga gömul. Með þessari stækkun verður reksturinn á flestan hátt hagkvæmari og starfsöryggi eykst. Fiskeldi í heiminum hefur verið örum í vexti á undanförnum árum og ég sé ekki fram á annað en að svo verði áfram á komandi árum. Hérna í Öxarfirðinum eru aðstæður til landeldis á margan hátt góðar, þannig að ég er bjartsýnn og fullur tilhlökkunar. Það verður mikið um að vera hérna næstu mánuðina og stefnan er að nýju kerin verði tekin í notkun næsta haust. Sólin hækkar sem sagt á lofti í margvíslegum skilningi,“ segir Thomas Helmig eldisstjóri Silfurstjörnunnar.

Núverandi byggingar sildurstjörnunnar

Deila: