Víða verður vart við loðnu

Deila:

,,Við erum búnir að elta þessa loðnu hingað norður eftir og erum komnir með um 1.200 tonn í sjö köstum. Það var töluvert mikið að sjá á mælum eftir að það dimmdi í gærkvöldi en í dag hafa þetta aðallega verið litlar peðrur og aflinn er í samræmi við það.“

Þetta sagði Albert Sveinsson skipstjóri á Víkingi AK er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda síðdegis í gær. Víkingur hefur undanfarna daga elt loðnugönguna frá Snæfellsnesi og norður út af Dýrafirði en þar var skipið statt, ásamt fleirum, er tal náðist af Alberti.
Loðna virðist vera nokkuð víða við landið um þessar mundir en um helgina bárust fréttir af því að Jóna Eðvalds SF hefði lóðað á loðnu út af Norðurlandi. Í kjölfarið fór Ásgrímur Halldórsson SF á staðinn.
,,Þetta veiðisvæði er út af Fljótunum eða Siglufirði og mér skilst að ágæt veiði hafi fengist þar. Þarna hafa verið ein fjögur til fimm skip og mér skilst líka að loðnan þarna sé ekki eins langt gengin og sú hér fyrir vestan og hrognafyllingin sé því lægri. Þá hefur Jón Kjartansson SU verið að kasta á loðnu einhvers staðar við suðurströndina,“ sagði Albert Sveinsson.
Því er við þetta að bæta að er rætt var við Albert var Jón Kjartansson út af Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi á leið til Eskifjarðar.
 

 

Deila: