Á flótta undan gullkarfa

Deila:

 „Við komum til hafnar í morgun og förum aftur út síðdegis á morgun. Aflinn var um 120 til 130 tonn af fiski, mest ufsa, eftir rúma fjóra sólarhringa á veiðum. Við lónuðum allan laugardaginn og á aðfararnótt sunnudags vegna veðurs en að öðru leyti var veður skaplegt í veiðiferðinni,” segir Friðleifur Einarsson (Leifur), skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK er rætt var við hann á heimasíðu Brims í gær.

Spáð var aftakaveðri síðdegis í gær og í gærkvöld. Leifur segir gott að vera í höfn en þeir, sem eru á sjó, verði að lóna eða leita vars á meðan það versta gengur yfir. Leifur segir að ný afstaðin veiðiferð hafi sloppið til og aflinn verði að teljast ásættanlegur í ljósi aðstæðna.

,,Við vorum bara að veiðum á Fjöllunum og Eldeyjarbanka að þessu sinni og það vantar ekki fiskinn. Hitt er verra að við erum á stöðugum flótta undan gullkarfa en hann er um allan sjó. Það er vaðandi karfi alls staðar. Það er erfitt að forðast karfann en þó gerlegt,” segir Leifur.

Vertíðarþorskur er aðeins farinn að gera vart við sig í afla togaranna og Leifur segir það e.t.v. spurningu um viku eða tvær þangað til að vertíðarþorskurinn byrjar að skila sér af krafti.

Deila: